Við hjá Íslenska náttúruverndarsjóðnum fögnum því að þessi málarekstur sé kominn á skrið. Einsog gestir þessarar Facebooksíðu okkar vita deilum við því áliti, sem þarna kemur fram, að ís­lenska ríkið og opinberar stofnanir hafi sýnt af sér sak­næma hátt­semi við útgáfu leyfa fyrir laxeldi í sjókví­um.

Við mælum með lestri á þessu viðtali við Jón Þór Ólason, hæsta­rétt­ar­lögmann sem birtist í Morgunblaðinu:

„Við byggj­um á því að ís­lenska ríkið hafi sýnt af sér sak­næma hátt­semi og nátt­úru­lega und­ir­stofn­an­ir þess í tengsl­um við fisk­eldi og leyf­is­veit­ing­ar á fisk­eldi í sjókví­um, eða neta­pok­um, í ís­lenskri lög­sögu,“ seg­ir Jón Þór Ólason, hæsta­rétt­ar­lögmaður á lög­manns­stof­unni Jónatans­son & Co., sem bréf­lega hef­ur farið fram á viður­kenn­ingu á skaðabóta­skyldu rík­is­ins vegna slysaslepp­inga lax úr sjókví­um.

Fer Jón Þór með málið í umboði Veiðifé­lags Hrúta­fjarðarár og Síkár og er að ljúka við gerð stefnu á hend­ur rík­inu. „Við erum að klára stefn­una sem geng­ur út á að ís­lenska ríkið hafi gerst brot­legt og farið gegn meg­in­regl­um skaðabóta­rétt­ar, um­bjóðandi minn hafi rétt­mæt­ar vænt­ing­ar um að eign­ar­rétt­ur hans sé virt­ur,“ seg­ir Jón Þór.

Vís­ar hann til ný­legra niðurstaðna Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu um rétt kom­andi kyn­slóða til líf­fræðilegs fjöl­breyti­leika. „Þetta er dóm­ur sem féll í vor gegn sviss­neska rík­inu eft­ir að miðaldra kon­ur fóru í mál við það í tengsl­um við lofts­lags­mál. Þar er kveðið á um já­kvæðar skyld­ur aðild­ar­ríkja í mál­um sem varða um­hverf­is­rétt,“ held­ur hann áfram.

Jón Þór bend­ir á að hægt sé að byggja málið á „hlaðborði af lög­um“, til að mynda nátt­úru­vernd­ar­lög­um og fisk­veiðilög­un­um sjálf­um þar sem kveðið sé á um að hags­mun­ir fisk­eld­is­ins skuli víkja ljósti þeim og hags­mun­um nátt­úru­legra laxa sam­an. „Í fyrra var svört skýrsla Haf­rann­sókna­stofn­un­ar um erfðablönd­un villta lax­ins lögð fram og staðfest að erfðablönd­un sé þegar haf­in í ís­lensk­um ám,“ seg­ir lögmaður­inn.

„Þarna er staðfest að bæði fyrstukyn­slóðarblend­ing­ar og annarr­arkyn­slóðarblend­ing­ar séu til í ís­lensk­um ám og hafi fund­ist í 26 ám á land­inu sem er orðið háal­var­legt,“ seg­ir Jón Þór. „Þú ert nú í Nor­egi, þar er staðan eins svört og hún get­ur orðið, þar eru tveir þriðju hlut­ar laxveiðiáa með erfðablönd­un og búið að loka fjölda laxveiðiáa vegna þessa og hérna á Íslandi er það líka staðreynd að atlants­hafslax­inn hef­ur átt und­ir högg að sækja.“
Kokteill úr norsk­um stofn­um

Hann seg­ir lax­inn í ís­lensk­um neta­pok­um þar að auki alls ekki ís­lensk­an. „Þetta er svo­kallaður saga-stofn sem er kokteill úr norsk­um laxa­stofn­um þannig að í skiln­ingi laga er þetta fram­andi líf­vera í ís­lensku líf­ríki,“ seg­ir lögmaður­inn og kveður það eft­ir­tekt­ar­vert að Norðmenn hafi sett þær regl­ur að eng­inn lax megi fara ofan í kví­ar nema hann sé af norsk­um stofni.

„Nú á erfðablönd­un­in eft­ir stóru slepp­ing­arn­ar eft­ir að koma í ljós á næstu árum, þá stærstu hjá Arctic Fish í fyrra. Þannig að við byggj­um á því að ís­lenska ríkið og und­ir­stofn­an­ir þess hafi virt lög að vett­ugi. Póli­tík­in hér er svo gjör­sam­lega spillt í þessu að mönn­um er kippt í póli­tík og úr póli­tík og þeir ger­ast starfs­menn þess­ara fisk­eld­is­fyr­ir­tækja og eru svo með stóra og mikla lobbý­ista sem reka þetta áfram,“ seg­ir Jón Þór og fer dýpra í stjórn­mál­in.

Leyf­um hafi verið dælt út án þess að lög­um og regl­um hafi verið fylgt og hið til­búna áhættumat Haf­rann­sókna­stofn­un­ar hafi reynst vera al­gjör­lega úr takti við raun­veru­leik­ann enda hafi það verið aft­ur­kallað.

„Ráðherr­ar og ráðamenn hafa líkt þessu við villta vestrið. Það er viður­kennt að lög­gjöf­in og eft­ir­litið sé fjár­svelt. Rík­is­end­ur­skoðun skilaði stórri skýrslu þar sem aðkomu ís­lenska rík­is­ins var gef­in fall­ein­kunn. Það er al­veg sama hvar þú kem­ur að, það ligg­ur fyr­ir að ís­lenska ríkið hef­ur ekki staðið sig og það er að verða óaft­ur­kræft tjón á ís­lenskri dýra­teg­und sem hef­ur verið mik­il­væg byggðum lands­ins,“ held­ur Jón Þór áfram og spyr hvað gerst hafi þegar til stóð að kyn­bæta ís­lenska fjár­stofn­inn.

„Þá var flutt inn karak­úlfé,“ svar­ar hann spurn­ing­unni sjálf­ur og vís­ar til sauðfjár­kyns sem rek­ur upp­runa sinn til Úsbekist­an. „Því fylgdu sjúk­dóm­ar sem áður voru óþekkt­ir, til dæm­is riðuveiki, mæðuveiki og fjár­kláði. Og þessi norski [laxa]stofn skap­ar mun meiri hættu vegna þess að hann er fram­andi líf­vera í ís­lenskri nátt­úru.“

Nú sé talað um að kom­in sé upp­bygg­ing fyr­ir vest­an og aust­an sem sé hið besta mál. „En þarna er bara verið að búa til vinnu á ein­um stað sem hverf­ur á öðrum stað. Það eru 1.500 lög­býli sem hafa tekj­ur af lax­in­um og marg­ar sveit­ir eru enn í byggð ein­fald­lega vegna þess að bænd­ur fá tekj­ur af laxveiðinni, þetta er lífæð sveit­anna þess­ar ár sem eru með þess­um tíu þúsund ára gamla stofni,“ bend­ir hann á.