Við hjá Íslenska náttúruverndarsjóðnum fögnum því að þessi málarekstur sé kominn á skrið. Einsog gestir þessarar Facebooksíðu okkar vita deilum við því áliti, sem þarna kemur fram, að íslenska ríkið og opinberar stofnanir hafi sýnt af sér saknæma háttsemi við útgáfu leyfa fyrir laxeldi í sjókvíum.
Við mælum með lestri á þessu viðtali við Jón Þór Ólason, hæstaréttarlögmann sem birtist í Morgunblaðinu:
„Við byggjum á því að íslenska ríkið hafi sýnt af sér saknæma háttsemi og náttúrulega undirstofnanir þess í tengslum við fiskeldi og leyfisveitingar á fiskeldi í sjókvíum, eða netapokum, í íslenskri lögsögu,“ segir Jón Þór Ólason, hæstaréttarlögmaður á lögmannsstofunni Jónatansson & Co., sem bréflega hefur farið fram á viðurkenningu á skaðabótaskyldu ríkisins vegna slysasleppinga lax úr sjókvíum.
Fer Jón Þór með málið í umboði Veiðifélags Hrútafjarðarár og Síkár og er að ljúka við gerð stefnu á hendur ríkinu. „Við erum að klára stefnuna sem gengur út á að íslenska ríkið hafi gerst brotlegt og farið gegn meginreglum skaðabótaréttar, umbjóðandi minn hafi réttmætar væntingar um að eignarréttur hans sé virtur,“ segir Jón Þór.
Vísar hann til nýlegra niðurstaðna Mannréttindadómstóls Evrópu um rétt komandi kynslóða til líffræðilegs fjölbreytileika. „Þetta er dómur sem féll í vor gegn svissneska ríkinu eftir að miðaldra konur fóru í mál við það í tengslum við loftslagsmál. Þar er kveðið á um jákvæðar skyldur aðildarríkja í málum sem varða umhverfisrétt,“ heldur hann áfram.
Jón Þór bendir á að hægt sé að byggja málið á „hlaðborði af lögum“, til að mynda náttúruverndarlögum og fiskveiðilögunum sjálfum þar sem kveðið sé á um að hagsmunir fiskeldisins skuli víkja ljósti þeim og hagsmunum náttúrulegra laxa saman. „Í fyrra var svört skýrsla Hafrannsóknastofnunar um erfðablöndun villta laxins lögð fram og staðfest að erfðablöndun sé þegar hafin í íslenskum ám,“ segir lögmaðurinn.
…
„Þarna er staðfest að bæði fyrstukynslóðarblendingar og annarrarkynslóðarblendingar séu til í íslenskum ám og hafi fundist í 26 ám á landinu sem er orðið háalvarlegt,“ segir Jón Þór. „Þú ert nú í Noregi, þar er staðan eins svört og hún getur orðið, þar eru tveir þriðju hlutar laxveiðiáa með erfðablöndun og búið að loka fjölda laxveiðiáa vegna þessa og hérna á Íslandi er það líka staðreynd að atlantshafslaxinn hefur átt undir högg að sækja.“
Kokteill úr norskum stofnumHann segir laxinn í íslenskum netapokum þar að auki alls ekki íslenskan. „Þetta er svokallaður saga-stofn sem er kokteill úr norskum laxastofnum þannig að í skilningi laga er þetta framandi lífvera í íslensku lífríki,“ segir lögmaðurinn og kveður það eftirtektarvert að Norðmenn hafi sett þær reglur að enginn lax megi fara ofan í kvíar nema hann sé af norskum stofni.
…
„Nú á erfðablöndunin eftir stóru sleppingarnar eftir að koma í ljós á næstu árum, þá stærstu hjá Arctic Fish í fyrra. Þannig að við byggjum á því að íslenska ríkið og undirstofnanir þess hafi virt lög að vettugi. Pólitíkin hér er svo gjörsamlega spillt í þessu að mönnum er kippt í pólitík og úr pólitík og þeir gerast starfsmenn þessara fiskeldisfyrirtækja og eru svo með stóra og mikla lobbýista sem reka þetta áfram,“ segir Jón Þór og fer dýpra í stjórnmálin.
…
Leyfum hafi verið dælt út án þess að lögum og reglum hafi verið fylgt og hið tilbúna áhættumat Hafrannsóknastofnunar hafi reynst vera algjörlega úr takti við raunveruleikann enda hafi það verið afturkallað.
„Ráðherrar og ráðamenn hafa líkt þessu við villta vestrið. Það er viðurkennt að löggjöfin og eftirlitið sé fjársvelt. Ríkisendurskoðun skilaði stórri skýrslu þar sem aðkomu íslenska ríkisins var gefin falleinkunn. Það er alveg sama hvar þú kemur að, það liggur fyrir að íslenska ríkið hefur ekki staðið sig og það er að verða óafturkræft tjón á íslenskri dýrategund sem hefur verið mikilvæg byggðum landsins,“ heldur Jón Þór áfram og spyr hvað gerst hafi þegar til stóð að kynbæta íslenska fjárstofninn.
„Þá var flutt inn karakúlfé,“ svarar hann spurningunni sjálfur og vísar til sauðfjárkyns sem rekur uppruna sinn til Úsbekistan. „Því fylgdu sjúkdómar sem áður voru óþekktir, til dæmis riðuveiki, mæðuveiki og fjárkláði. Og þessi norski [laxa]stofn skapar mun meiri hættu vegna þess að hann er framandi lífvera í íslenskri náttúru.“
Nú sé talað um að komin sé uppbygging fyrir vestan og austan sem sé hið besta mál. „En þarna er bara verið að búa til vinnu á einum stað sem hverfur á öðrum stað. Það eru 1.500 lögbýli sem hafa tekjur af laxinum og margar sveitir eru enn í byggð einfaldlega vegna þess að bændur fá tekjur af laxveiðinni, þetta er lífæð sveitanna þessar ár sem eru með þessum tíu þúsund ára gamla stofni,“ bendir hann á.