Norska dagblaðið Dagens Næringsliv (DN) heldur áfram að birta sláandi fréttaskýringar um eiturefnið Tralopyril sem sjókvíaeldisfyrirtæki í Noregi nota í miklum mæli til að koma í veg fyrir að sjávargróður og lífverur setjist á netapokana í sjókvíunum.

Fyrirtækin fengu heimild til að nota efnið í stað koparoxíðs, en sú ásætuvörn inniheldur þungmálminn kopar sem brotnar ekki niður í náttúrunni heldur veldur þar óafturkræfri hættulegri mengun í lífverum og gróðri.

Bæði Arnarlax og Arctic Fish nota koparoxíð sem ásætuvarnir hér við land og Arctic Fish hefur sótt um að fá að nota Tralopyril.

Tralopyril átti samkvæmt sjókvíeldisfyrirtækjunum að vera skaðlaust umhverfinu en nú hafa rannsóknir staðfest að svo er alls ekki raunin. Efnið hefur fundist í kræklingi, sem hefur drepist í stórum stíl af völdum þess í nágrenni sjókvíanna, smáhákörlum og fleiri lífverum. Þá hefur efnið einnig fundist í holdi eldislaxa.

Í fréttaskýringu DN segir Monica Sanden frá norsku Hafrannsóknastofnuninni: „Þetta er efni sem við viljum hvorki finna leifar af í matvöru okkar né umhverfi.“