Vísir fjallar um fréttaskýringu sem norska blaðsins Dagens Næringsliv birtir í helgarútgáfu sinni um eiturefni úr ásætuvörnum í sjókvíaeldi sem er að valda eitrun í kræklingi, smáum hákörlum og öðrum villtum fisktegundum.
Í fréttinni er vitnað til orða Jóns Kaldals, talsmanns okkar hjá IWF sem segir meðal annars:
„Sú afstaða Arctic Fish að vilja komast hjá umhverfismati og nota þetta baneitraða efni er lýsandi fyrir algjört skeytingarleysi sjókvíaeldisiðnaðarins gagnvart umhverfinu og lífríkinu. Í þessum rekstri er eina markmiðið að hámarka ágóða hluthafa. Engu er skeytt um það tjón sem valdið er á náttúrunni og hagsmunum annarra sem vilja nýta auðlindir hennar með sjálfbærum hætti.“
Í fréttinni sem birtist á vísi segir ennfremur:
Jón Kaldal, talsmaður Íslenska náttúruverndarsjóðsins, segir umsókn Arctic Fish um að fá að nota efnið tralopyril á möskva sína í sjókvíum lýsa algjöru skeytingarleysi gagnvart umhverfinu, þar komist eitt og aðeins eitt að sem er hámörkun gróða.
…
Tralopyril á að koma í veg fyrir að lífverur festi sig á netapokana í sjókvíunum og hefur verið kynnt sem skaðlaust en nú hefur það fengist staðfest að það stenst ekki skoðun. Sú er í það minnsta niðurstaða rannsókna sem Dagens Næringsliv birtir undir fyrirsögninni „Giften í fjordena“. Þar segir að efnið, sem er notað daglega í norskum sjókvíum hafi nú fundist meðal annars í kræklingi og lúðu.
Arctic Sea Farm, sem er einn hluti Artic Fish-samsteypunnar, hefur sótt um að fá að nota ásætuvarnir sem innihalda tralopyril á net í sjókvíum sínum á Vestfjörðum. Í umsókn fyrirtækisins til Skipulagsstofnunar kemur þetta fram:
„Það er mat Arctic Sea Farm að notkun ásætuvarna sem innihalda Tralopyril (ECONEA®) og Zinc Pyrithione fylgi ekki verulega neikvæð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.“
Hafró vill umhverfismat
Í umsögn Hafrannsóknastofnunar Íslands um umsókn Arctic Sea Farm er lagst gegn því að leyfið verði veitt án þess að umhverfismat fari fram áður:„Út frá sínu starfssviði telur Hafrannsóknastofnun að miðað við þá takmörkuðu þekkingu og óvissu sem liggur fyrir um efnin á lífríki, aðra en þá að þau eru mjög eitruð lífverum, sé varasamt að nota þau í sjó hér við land, sérstaklega Zinc Pyrithione.“