Vegna þess hversu þröngur Seyðisfjörður er mun verða afar erfitt að halda áfram með áform um sjókvíaeldi í firðinum án þess að ógna alvarlega fjarskipta- og siglingaöryggi.

Austurfrétt greinir frá:

Farice, opinbert félag sem rekur þrjá sæstrengi sem flytja fjarskiptagögn til og frá Íslandi, vill að beðið verði með að gefa út leyfi til fiskeldis í Seyðisfirði þar til búið verði að skýra lög er varða helgunarsvæði fjarskiptastrengja. Þótt breytingar hafi orðið á fjarskiptalögum síðan Farice hóf að vekja máls á vandamálinu hefur ekki verið brugðist við ábendingum þess.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn Farice til Matvælastofnunar en stofnunin gefur út rekstrarleyfi fyrir fiskeldi hérlendis. Kaldvík sendi árið 2018 inn umsókn um leyfi til að ala allt að 10 þúsund tonn í Seyðisfirði.

Samkvæmt fjarskiptalögum njóta sæstrengirnir verndar, svokallaðs helgunarsvæðis, sem er fjórðungur úr sjómílu eða 483 metrar, sitt hvoru megin við strenginn. Á þessu svæði eiga sjófarendur að sýna sérstaka aðgæslu. Þar er bannað að veiða með veiðarfærum sem festast í eða eru dregin eftir botni.

Deilurnar snúast hins vegar ekki um veiðarfæri heldur ákvæði um að bannað sé að varpa akkeri innan helgunarsvæðisins. Í umsókninni er ekki nákvæmlega tilgreint hvernig festa eigi kvíarnar en Farice segir það vanalega gert með stórum plógakkerum sem í vondum veðrum geti færst til og skaðað strenginn líkt og veiðarfæri.

Þess vegna telur Farice að uppfæra þurfi lögin og leggur til að bannað verði að festa sjókvíar innan helgunarsvæða. Að auki að fylgjast með að akkerin reki ekki inn á helgunarsvæðið. Fyrirtækið vekur athygli á að sæstrengurinn í Seyðisfirði liggi ofan á hafsbotninum og því geti rót á botninum nærri strengnum valdið skemmdum. Talsmenn Kaldvíkur hafa sagt að hægt sé að hanna festingar sjókvíanna í Seyðisfirði þannig þær verðu utan við helgunarsvæði sæstrengsins.

Best að hafa eldissvæðin utan helgunarsvæðis
Farice vekur einnig athygli á þeirri þjónustu sem eldið þurfi sem sinna þurfi með skipum eða prömmum sem væntanlega þurfi að varpa akkeri. Félagið vill að tryggt verði að sjókvíar verði það fjærri helgunarsvæðum að vinna við þær geti farið fram án þess að akkerum sé varpað innan helgunarsvæðanna. Af teikningum má ráða að áætluð eldissvæði í Selsstaðavík, Sörlastaðavík og Skálanesbót eru öll mjög nærri, eða jafnvel inni á helgunarsvæðum. Stjórnendur Kaldvíkur hafa á móti sagt að þeir hafi fallið frá öllum áformum um eldi við Háubakka, sem hefði skarst á við strenginn þar sem hann kemur á land nærri Vestdalseyri.

Farice segir strenginn skipta miklu máli, fyrir Ísland en ekki síður Færeyjar sem treysti á gagnaflutning um hann. Félagið kveðst hafa vakið athygli á þessum árekstrum, fyrst við Skipulagsstofnun við gerð strandsvæðaskipulags fyrir Austfirði árið 2020 og aftur við háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytið í fyrra. Það hafi verið gert með vitund Samtaka iðnaðarins sem styðji málstað Farice. Ný fjarskiptalög voru samþykkt af Alþingi árið 2022 og breytingar gerðar í vor án þess að ábendingar Farice hafi ratað inn.

Í lokaorðum sínum segir Farice „afar óheppilegt“ að umsóknin um eldi nærri sæstreng sé til meðferðar á meðan frekari reglur skorti og telur því ekki hægt að afgreiða umsóknina.