Fréttirnar frá Noregi vekja eðlilega óhug. Heilbrigðisástand starfsfólks í eldisiðnaðinum hér á landi hefur ekki verið rannsakað.

Vísir fjallar um laxaastma sem hrjáir starfsfólk í norskum laxasláturhúsum:

Dæmi eru um að alvarlegir öndunarfærasjúkdómar hafi gert vart við sig hjá starfsfólki sem vinnur við slátrun og pökkun á eldislaxi í Noregi. Fyrirbrigðið hefur hlotið viðurnefnið „laxaastmi“ og hlýst af því þegar andað er að sér vatnsúða sem inniheldur örsmáar agnir af laxaholdi, bakteríum og aðra vessa úr laxinum. Framkvæmdastjóri eldisins segir astma tengdan vinnu þekkt vandamál í fleiri geirum.

Þetta kemur fram í úttekt norska ríkisútvarpsins þar sem fjallað er um doktorsverkefni Carl Fredrik Fagernæs, læknanema við St. Olavs sjúkrahúsið í Þrándheimi. Segir í umfjölluninni að komu sjúklinga með öndunarfærasýkingu á spítalann sem starfi í eldisiðnaði hafi fjölgað undanfarin ár svo eftir hafi verið tekið.

NRK hefur eftir Fagernæs að læknar séu áhyggjufullir vegna þessarar þróunar. Þá einna helst vegna þess að veikindin hafi hingað til vakið litla athygli í Noregi og vegna þess að líklega sé töluverður fjöldi starfsfólks haldinn sýkingu án þess að gera sér grein fyrir því.

 

Fylgst hefur verið með 36 manna hópi, sem öll eiga það sameiginlegt að eiga erfitt með öndun. Að sögn Fagernæs er starfsfólkið flest á fertugs og fimmtugsaldri. Öll hafa þau neyðst til þess að hætta störfum í iðnaðinum vegna þessa.

Fagernæs segir vatnsúðann vera meginorsakavaldinn. Vélar sem notaðar séu til að skera laxinn noti til þess vatnsbunur, auk þess sem vatn sé notað í ríkum mæli á færibandið. Vatn sé notað til þrifa á gólfum og úti á veggjum.

Læknirinn segir vatnsúðann hafa verið greindan af yfirvöldum. Í honum sé að finna fiskroð, bein, blóð og aðra líkamsvessa úr laxinum. Einnig sé þar að finna svepp og bakteríur. Fólk myndi með sér astma þegar það andi þessum úða að sér auk þess sem kalt er í vinnslustöðvunum. Fagernæs lýsir þessu í umfjöllun NRK sem laxaastma.