Þetta er reynslan frá Bresku Kólumbíu í Kanada þar sem sjókvíaeldisfyrirtækjunum var skipað að taka sjókvíarnar upp vegna skaðans sem þær valda á náttúrunni og lífríkinu. Sjá meðfylgjandi mynd frá Alexandra Morton.

Villta Kyrrahafslaxinum tók strax að fjölga í ánum. Náttúran er byrjuð að lækna sig.

Á Vesturströnd Kanada er ekki hætta á erfðablöndun frá sjókvíaeldinu því í kvíunum er eldislax af norskum Norður-Atlantshafsstofni sem getur ekki blandast villtum Kyrrahafslaxi.

Allur annar ómældur skaði var þó til staðar áður en sjókvíaeldið fór: Mengunin vegna saurs, fóðurleifa, örplasts, þungmálma, skordýraeiturs og annarra kemískra efna sem fyrirtækin láta streyma beint í sjóinn.

Við þennan hryllingskokteil bættist svo gríðarlegt magn af sníkjudýrum, bakteríum og veirum sem grasserar í svona þauleldi og hefur áhrif á villta lífríkið langt um það sem þekking er á.

Í sjókvíaeldi er enn byggt á þeirri glórulausu gömlu hugmynd að sjórinn geti tekið endalaust við því sem mannkynið losar sig við í hann.