Hér er fyrir neðan er hlekkur á mjög fróðlega úttekt á Landsáætlun Erfðanefndar landbúnaðarins. Birtist í fréttaskýringaþættinum Þetta helst á Rás 1.

Árni Bragason, formaður nefndarinnar, hefur miklar áhyggjur af því græðgi við ræktun og eldi á dýrum á Íslandi geti orðið umhyggju fyrir náttúrunni yfirsterkari.

Í texta landsáætlunarinnar er sérstakur kafli um eldi á ferskvatnsfiskum. Þar herðir erðfanefndin og bætir í fyrri varnaðarorð sín vegna sjókvíaeldis á laxi:

„Villtum stofnum laxa og laxfiska stafar ógn af eldi laxa í sjókvíum. Helstu áhrifin eru vegna mögnunar og útbreiðslu laxalúsar og erfðablöndunar við villta stofna og jafnvel sjúkdóma. Á Íslandi er notaður eldisstofn af framandi uppruna (norskur) í sjókvíaeldi. Vegna þeirrar áhættu sem því fylgir hefur erfðanefnd landbúnaðarins lagst gegn notkun hans. Í Noregi má aðeins ala eldislax af innlendum uppruna í sjókvíum en þó eru strokulaxar úr eldi taldir ein helsta ógn við villta 52 stofna þar í landi.

Erfðablöndun hefur mælst í flestum laxastofnum í Noregi sem rannsakaðir hafa verið. Erfðablöndun getur brotið upp náttúrulega aðlögun, breytt erfðasamsetningu (gert þá líkari eldislöxum) og valdið erfðafræðilegri einsleitni laxastofna. Áhrifin geta komið fram í hnignun stofna, breyttri lífssögu, minni getu til að bregðast við loftslagsbreytingum og minni líffræðilegri fjölbreytni. Stofnar geta minnkað sem og veiði.“

Og:

„Nýlega birti Hafrannsóknastofnun niðurstöður rannsókna sem sýndu fram á erfðablöndun við villta laxa við hlutfallslega litla framleiðslu á eldislaxi. Erfðablöndun var meiri nærri eldissvæðum, hvort sem um var að ræða nýja (fyrstu kynslóðar) eða eldri blöndun, annarrar kynslóðar eða síðari.

Á Vestfjörðum eru tugir áa sem fóstra lax. Vegna nálægðar við laxeldi og smæðar laxastofnanna (eða stofnhluta) eru þeir í mestri hættu á erfðablöndun. Hætta er á að erfðablöndun dreifist út fyrir svæðið vegna verri rötunar blendinga.“

Við mælum með hlustun. Þetta er stórfróðlegur þáttur.

Hér er svo hlekkur á Landsætlunina sem gildir fyrir árin 2024 til 2028.