Þegar þáverandi matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, og Kolbeinn Árnason, skrifstofustjóri fiskeldis í matvælaráðuneytinu kynntu áform um breytta löggjöf um sjókvíaeldi á Hilton Nordica hótelinu síðasta haust gerðu þau bæði mikið úr því að hörð viðurlög yrðu við því þegar eldislax sleppur úr sjókvíum.

Meðal refsinga sem Kolbeinn nefndi voru minnkun á framleiðslukvóta í laxeldi og afturköllun starfsleyfa.

Í frumvarpinu sem fór til Alþingis voru hins vegar engin slík ákvæði. Búið var að fjarlægja orðin „þegar fiskur sleppur ítrekað“ sem grundvöll sviptingar rekstrarleyfis, en sú heimild er í núgildandi lögum (16. gr), og í stað skerðingar á framleiðslukvóta vegna sleppinga eldisfisks, einsog boðað var, er í frumvarpinu ákvæði um sekt með þaki. Með öðrum orðum þá munu fyrirtækin fá magnafslátt þegar þau missa frá sér mikinn fjölda fiska.

Fyrirheit sem lofuðu góðu voru þannig svikin fullkomlega.

Heimildin greinir frá:

Matvælaráðuneytið boðar „zero tolerance“, eða ekkert umburðarlyndi, gagnvart slysasleppingum í íslensku sjókvíaeldi. Þetta gerir ráðuneytið í nýrri stefnumörkun í laxeldi fram til ársins 2040 þrátt fyrir að aldrei í sögu þessarar greinar hafi verið hægt að útiloka að fiskar sleppi úr sjókvíum. Kolbeinn Árnason, skrifstofustjóri matvæla- og fiskeldis í ráðuneytinu, notaði þetta orðalag og fór yfir helstu atriðin í nýju stefnumörkuninni á kynningarfundi á Hilton Nordica hótelinu í Reykjavík ásamt Svandísi Svavarsdóttur ráðherra.

Í erindi sínu sagði Kolbeinn orðrétt meðal annars: „Við erum að sjá afleiðingar stroks og þar er mælikvarðinn afskaplega einfaldur: Það er bara zero tolerance í því máli. Ef að lax strýkur úr kví sem þú berð ábyrgð á þá verða heimildir þínar skertar sem nemur margfeldi af þeim löxum sem strjúka.“

Í orðum Kolbeins kom skýrt fram að íslensk stjórnvöld ætli sér að reyna allt hvað þau geta til að girða fyrir mögulegar slysasleppingar í sjókvíaeldi og ræddi hann sérstaklega um slysið hjá laxeldisfyrirtækinu Arctic Fish í Patreksfirði í sumar. Eldislaxarnir hafa synt upp í ýmsar ár á liðnum vikum. Þessi slysaslepping er önnur stóra slysasleppingin sem komið hefur upp í íslensku sjókvíaeldi á síðastliðnum árum en árið 2020 sluppu um 82 þúsund eldislaxar úr sjókví hjá Arnarlaxi. Í stefnumörkuninni eru boðaðar hertari reglur og refsingar ef laxeldisfyrirtæki brjóta gegn þeim. Meðal refsinga sem Kolbeinn nefndi eru meðal annars minnkun á framleiðslukvóta í laxeldi og afturköllun starfsleyfa.

Bæði Svandís Svavarsdóttir og Kolbeinn Árnason komu inn á það í erindum sínum að næstu fimm ár verði eins konar tilraun þar sem skoðað verður hvernig sjókvíaeldisfyrirtækjunum muni ganga að vinna innan þessa nýja regluverks og hvort jafnvel þurfi að endurskoða það og herða enn frekar. Um þetta sagði Svandís: „Að fimm árum liðnum, árið 2028, er fyrsta varðan á leiðinni. Við ætlumst til þess að greinin hafi náð verulegum árangri á ýmsum sviðum árið 2028.“

Kolbeinn sagði um þetta atriði að ef árangur náist ekki að fimm árum liðnum, meðal annars væntanlega varðandi slysasleppingar, þá þyrfti mögulega að herða stefnumörkunina og skikka laxeldisfyrirtækin til að taka upp nýja tækni: „Við erum með þetta tímamark, 2028, þar sem við munum taka stöðu og ákveða hvort grípa þurfi til einhverra harðari aðgerða sem fela þá í sér innleiðingu á einhvers konar tækni sem nær þá þessum markmiðum okkar.“

Stefnumörkunin fer svo til meðferðar á Alþingi þar sem hún verður löguð og eða henni breytt eftir atvikum.