Þetta er hin grafalvarlega staða. Villti laxinn á erfitt og við erum að gera tilveru hans enn þá verri með því að leyfa laxeldi í opnum sjókvíum.
Ef lagareldisfrumvarp VG verður samþykkt munu þingmennirnir sem að því standa missa varanlega allan trúverðugleika þegar kemur að vernd náttúru og lífríkis.
Fjallað er um ráðstefnu Six Rivers sem haldin er á Vopnafirði á vef Morgunblaðsins:
Staða laxins er ekki bara alvarleg. Hún er grafalvarleg, eins og kom glögglega fram í máli doktor Rasmus Lauridsen sem er vísindamaður staðsettur á Vopnafirði og sinnir rannsóknum fyrir SRI. Hann benti á að heildarstofn Atlantshaflaxins væri í dag um helmingur af því sem hann var um síðustu aldamót. Á níunda áratug síðustu aldar hafi ríflega sex milljónir laxa verið í Atlantshafi á fæðuslóð frá hinum ýmsu löndum, einkum í Evrópu. Í dag er þessi tala áætluð ríflega tvær milljónir einstaklinga. Síðustu tvo áratugina hefur stofninn minnkað um helming.
Á sama tíma hefur veiði í sjó snarminnkað og er nú ekki nema brot af því sem var þegar hún var mest stunduð.
…
Á ráðstefnunni koma saman allir helstu hagaðilar, bæði heimamenn og aðrir innanlands auk fremstu laxasérfræðinga frá Íslandi, Noregi og Bretlandi. Fjallað verður um hnignun laxastofnsins hvarvetna við Norður-Atlantshaf, en stærð stofnsins er komin niður í fjórðung af því sem var á áttunda áratugnum.
Horft verður til aðgerða Six Rivers Iceland til að vernda og styðja við afkomu laxins hér í ljósi þessarar alþjóðlegu hnignunar og nýrra þátta sem ógna afkomu stofnsins – með áherslu á fyrirliggjandi verkefni um að bjarga laxinum frá brún útrýmingar,“ sagði í kynningu á SRI ráðstefnunni og eins og nefnt er þarna er laxinn á brúninni í stóra samhenginu. Vissulega eru einstök lönd eins og Ísland betur stödd en nágrannar okkar en línuritin eru á niðurleið sama hvaða þættir máls eru skoðaðir.