Tveir eldisaxar hafa nú þegar verið sendir til Hafrannsóknastofnunar í vor til greiningar. Ekki er vitað hversu margir kunna að hafa veiðst því ekki er alltaf hægt að þekkja eldislax sem hefur verið lengi í náttúrunni á útlitinu.
Rétt er að rifja upp af hverju erfðablöndun við eldislax er svona gríðarlega skaðleg fyrir villta laxastofna.
Líffræðilegur fjölbreytileiki er grundvallaratriði fyrir styrk allra tegunda, hvort sem það eru plöntur eða dýr. Hann verður til á þúsundum ára og mótast af umhverfi og aðstæðum sem geta hafa verið með ýmsum hætti. Tegundir byggja þannig upp getu til að takast á við fjölbreytt áföll. Þeir hæfustu lifa af.
Gen eldislax eru mun einsleitari en villtu laxstofnana. Eftir þaulræktun kynslóðum saman (það sem kallað er kynbætur í húsdýrahaldi) er eldislax orðið hraðvaxta húsdýr með gen sem eru mjög óheppileg fyrir villta laxinn.
Í þeim ríflega 100 íslenskum ám þar sem lax er nýttur með skipulögðum hætti á Íslandi, er í hverri og einni á sérstakur laxastofn með sín sérkenni. Erfðafræðilegur munur milli þessara stofna getur verið mikill því villti laxinn hefur lagað sig að sinni heimaá á mörg þúsund árum og árnar eru mjög misjafnar.
Þetta á auðvitað líka við um allar þær fjölmörgu aðrar ár á landinu, þar sem er ekki skipulögð nýting, með sína litlu stofna sem líka hafa átt þar heimkynni í þúsundir ára.
Aðlögunin er mikil hjá villta laxinum og erfðafræðilega er mikill munur milli vatnsfalla eða með því mesta sem gerist hjá dýrategundum.
Það er einmitt af þessari ástæðu sem villtir laxastofnar eru svo viðkvæmir fyrir erfðablöndun við eldislax. Eftir náttúruval, þar sem hefur tekið þúsundir ára fyrir viðkomandi stofn að aðlagast heimkynum sínum í tiltekinnni á, getur það haft skelfileg áhrif að fá skyndilega gen úr því hraðvaxta húsdýri sem norski eldislaxinn er.
Í fyrsta lagi minnkar líffræðilegi fjölbreytileikinn og gerir stofnana mun viðkvæmari fyrir áföllum.
Í öðru lagi geta áhrifin komið fram strax því hæfileiki blendinganna til að lifa af í náttúrunni snarminnkar. Þeir missa getuna til að rata, verða jafnvel of þungir til að komast á hrygningarslóð ásamt ýmsum öðrum neikvæðum áhrifum.
Afleiðingarnar verða síðan þær að stofn viðkomandi vatnsfalls minnkar og hverfur á endanum ef þessi erfðablöndun fær að viðgangast ár eftir ár eftir ár, eins óhjákvæmilegt er þar sem sjókvíaeldi er stundað því þaðan sleppur fiskur látlaust.
Í frétt Morgunblaðsins segir m.a.
Eldislax veiddist á mánudagskvöld í Haukadalsvatni. Var það hrygna. Annar eldislax veiddist í Laugardalsá fyrir vestan í síðustu viku. Það var hængur. Báðir laxarnir eru komnir til Hafrannsóknastofnunar til rannsóknar. Þröstur Reynisson veiddi laxinn í Haukadalsvatni, en hann og bróðir hans fengu leyfi til að kíkja aðeins í vatnið og ætluðu að ná sér í bleikju. …
Hann og Úlfar bróðir hans eru í hópi leigutaka að efri Haukadalsá. Þeir hafa rætt við landeigendur og stendur þeirra vilji til þess að skoða við fyrsta tækifæri ána, eða um leið og sjatnar í henni þannig að hægt sé að skyggna hana vel og kanna hvort eldisfiskar séu á ferðinni í henni. „Menn hljóta að gera þetta víðar og vonandi jafnvel um allt land. Við vitum ekki hvort þetta er patreksfirðingur sem lærði að borða í vetur eða nýlegur að austan. Við bíðum eftir því að heyra niðurstöður frá Hafrannsóknastofnun hvaðan hann kemur. Það vakti athygli okkar að hann er vel haldinn og alls ekki niðurgöngulegur. Það fór heldur ekkert milli mála að þetta er eldislax. Það er alveg upp á tíu að þetta er eldislax.“
…
Guðni Guðbergsson sviðstjóri Hafrannsóknastofnunar staðfesti í samtali við Sporðaköst að báðir þessir fiskar hafi borist til þeirra og eru til rannsóknar. Hann taldi líklegt að báðir þessir laxar gætu flokkast sem niðurgöngufiskar í þeim skilningi að þeir hefðu gengið í ferskt vatn í haust eða vetur. Hann sagði þó að slíkt kæmi ekki í ljós fyrr en niðurstöður úr rannsóknum lægju fyrir. …