Ekkert lát er á hrikalegum „afföllum“ í sjókvíum við landið. Samkvæmt nýbirtum tölum á vef Matvælastofnunar hélt eldislaxinn áfram að drepast í stórum stíl í apríl og lagast ástandið ekkert frá fyrri mánuðum ársins.
Alls drápust í sjókvíunum rúmlega 1,6 milljón eldislaxar fyrstu fjóra mánuði ársins. Er það á við um 33-falda stærð alls villta laxastofn Íslands, svo fólk átti sig á hversu hrikaleg tala þetta er.
Samkvæmt lagareldisfrumvarpi þriggja ráðherra VG, Svandísar Svavarsdóttur, Katrínar Jakobsdóttur og Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, fá sjókvíaeldisfyrirtækin að halda áfram að fara svona með eldisdýrin í 18 tímabil í röð (allt að 36 ár) áður en ákvæði um sviptingu rekstrarleyfa virkjast.
Frumvarpið kveður á um 3 prósent lækkun á lífmassa ef dauðinn fer yfir 20 prósent á tveggja ára tímabili og að rekstrarleyfi falli úr gildi þegar lífmassi fer niður fyrir 60 prósent.
Þetta eru gjörsamlega bitlaus ákvæði. Gildistími núverandi leyfa er 16 ár.
Þetta frumvarp má ekki verða að lögum.