Gríðarlegur dauði hefur verið í sjókvíum Arnarlax fyrstu mánuði ársins. Ástæðurnar eru skæð vetrarsár sem leika eldislaxana hrikalega.
Í ársfjórðungsuppgjöri sínu kallar Salmar, hið norska móðurfyrirtæki Arnarlax, þetta ömurlega dýravelferðarástand hins vegar „líffræðilegar áskoranir“.
Er það lýsandi fyrir hvernig sjókvíeldisfyrirtækin standa að upplýsingagjöf til almennings. Þau forðast einsog hægt er að segja hreint og beint frá dauða eldisdýranna, frá því þegar netin rofna eða frá öðrum skakkaföllum í starfsemi sinni, enda hafa slíkar fréttir bein áhrif á verð fyrirtækjanna í kauphöllinni þar sem þau eru skráð.
Eftirlitið með starfseminni hafa stjórnvöld svo falið fyrirtækjunum sjálfum, að langmestu leyti.
Í frétt Heimildarinnar segir meðal annars:
Norska laxeldisfyrirtækið Salmar greinir ekki frá því í nýju uppgjöri sínu fyrir fyrsta ársfjórðung þess árs af hverju um 300 þúsund eldislaxar drápust hjá Arnarlaxi í mars. Salmar er stærsti hluthafi Arnarlax. Heimildin fjallaði um laxadauðann hjá fyrirtækinu í lok apríl og hafði þá eftir forstjóra Arnarlax, Björn Hembre, að fyrirtækið myndi ræða um laxadauðann þar. „Við munum kynna fyrsta ársfjórðungsuppgjör okkar fyrir 2024 þann 14. maí og við munum ræða þetta mál þar,“ sagði hann.
Í uppgjöri félagsins er hins vegar ekki greint frá ástæðu laxadauðans, sem felur í sér fjárhagslegt tjón upp á 3,6 milljónir evra eða tæplega 542 milljónir króna, heldur er einungis talað um líffræðilegar áskoranir. „Kostnaður Icelandic Salmon [Arnarlax] út af slátruðum fiski var mikill vegna líffræðilegra áskorana og hafði þetta áhrif á uppgjör félagsins.“
Í svarinu frá Matvælasstofnun (MAST) sem Heimildin greindi frá í apríl segir um laxadauðann að rekja megi hann til meðal annars vetrarsára. „Aðalástæður þessara affalla eru Moritella viscosa, parvicapsulosis og Tenacibaculum,“ sagði í svarinu.
…
Uppgjörið hjá Salmar sýnir ágætlega hversu varlega laxeldisfyrirtæki fara gjarnan í upplýsingagjöf um skakkaföll og slys í rekstrinum hjá sér til að skapa ekki neikvæða og gagnrýna umræðu um þau.
Í kauphallartilkynningu frá Arnarlaxi sjálfu í gær komu fram aðeins nánari upplýsingar um laxadauðann hjá fyrirtækinu en ekki var teiknað upp hverjar ástæðurnar voru fyrir honum nákvæmlega. Þar sagði orðrétt: „Það voru líffræðilegar áskoranir á fyrsta ársfjórðungi. Hlutfall laxadauða í 2023 kynslóðinni í sjónum og í einni af seiðaeldisstöðvunum var óvanalega hátt, og leiddi til einskiptskostnaðar upp á 3,6 milljónir evra á tímabilinu.“