Það er vægast sagt sérstakt að Katrín telji sig ekki þurfa að svara fyrir þetta frumvarp, sem hún hafði mikla aðkomu að á meðan hún gegndi stöðu matvælaráðherra.

Í fréttaskýringu Heimildarinnar kemur meðal annars fram að Katrín lét breyta ákvæðum kafla frumvarpsins um gjaldtöku þannig að upphæðir þar væru tilgreindur í krónum en ekki evrum.

Ekkert er við þá breytingu að athuga en það segir ákveðna sögu að þetta var atriði sem Katrín staldraði við en lét kaflana um ótímabundnu leyfin, sorglega lélega dýravelferð og veik viðurlög við því þegar fyrirtækin láta fisk sleppa, ekki trufla sig. Allt eru þetta ákvæði sem eru sniðin að sérhagsmunum SFS fyrirtækjanna á kostnað almannahagsmuna, náttúrunnar og velferð eldislaxanna.

Katrín Jakobsdóttir, forsetaframbjóðandi og fyrrverandi forsætisráðherra, er sú eina af matvælaráðherrum Vinstri grænna á síðasta og yfirstandandi kjörtímabili sem ekki hefur tekið afstöðu gegn því að laxeldisfyrirtækin í landinu fái ótímabundin rekstarleyfi til að stunda sjókvíaeldi á Íslandi. Í frumvarpinu um lagareldi sem nú er til meðferðar á Alþingi er umdeild lagagrein um þetta atriði sem Bjarkey Gunnarsdóttir matvælaráðherra hefur nú boðað breytingar á.

Frumvarpið var til meðferðar í matvælaráðuneytinu þegar Katrín var settur matvælaráðherra í tíð síðustu ríkistjórnar vegna veikindaleyfis Svandísar Svavarsdóttur. Katrín hafði mikla aðkomu að frumvarpinu og fundaði meðal annars með hagaðilum úr laxeldi og laxveiði um málið í byrjun febrúar auk þess sem hún lagði til einstaka breytingar á frumvarpinu.

Spurningar Heimildarinnar og svar Katrínar Jakobsdóittir
1. „Nú hafa bæði Svandís og Bjarkey sagt að þær séu fylgjandi því að gera rekstrarleyfi í sjókvíaeldinu tímabundin. Bjarkey hefur sagt um greinina: „Ég heyri það alveg að réttsýni almennings og lögfræðin fara ekkert endilega saman í þessu máli. […] Og mér og þinginu ber að hlusta á það. Og ég er tilbúin að fara í tímabundin leyfi.“ Og sömuleiðis hefur Svandís sagt: „Mikilvægt sé að … ráðast í breytingar á því ákvæði með það fyrir augum að tímabinda heimildirnar en um leið að gæta sérstaklega að því að það verði ekki á kostnað náttúruverndar og umhverfishagsmuna.“

Hvaða skoðun hefur Katrín á þessu? Ertu fylgjandi tímabundnum eða ótímabundnum leyfum í sjókvíaeldinu?

2. Samkvæmt heimildum kom Katrín meðal annars á breytingum á frumvarpinu sem snérust um notkun krónu í stað í evru. Í skýringu við 76. grein frumvarpsins segir nú: „Í 4. mgr. er kveðið á um að fjárhæðaþrep 2. mgr. skuli uppreiknuð miðað við gengi evru þegar fjárhæðarþrep miðað við gengið 150 krónur á móti evru og sú evrutala síðan uppreiknuð miðað við viðkomandi evrugengi til þess að finna megi viðkomandi fjárhæðarþrep. Vegna þess að fjárhæðarþrepin eru sett fram í krónum, þá er nauðsynlegt að umreikna þau á hverjum tíma svo að fjárhæðaþrep fylgi breytingum í gengi krónu á móti evru líkt og heimsmarkaðsverð. Ástæða þess að fjárhæðaþrep eru sett fram í krónum, og gengið fastsett í 150 krónum á 120 móti evru, er fyrst og fremst viðleitni til þess að nota krónur í lagatexta í stað erlendra gjaldmiðla þar sem því verður við komið.“

Þetta bendir til að Katrín þekki efni frumvarpsins mjög vel og auk þess fundaði hún um það með hagaðilum. Hver er skoðun þín á frumvarpinu Katrín og þeirri gagnrýnu umræðu sem hefur verið um það?

3. Miðað við vinnu þína við frumvarpið þá vissir þú um inntak greinarinnar um ótímabundnu leyfin í laxeldinu. Af hverju leyfðir þú þeirri grein að fara óbreyttri í gegnum þig og ráðurneytið?.“

Svar Katrínar Jakobsdóttur:

„Eins og áður hefur komið fram finnst mér ekki við hæfi að forsetaframbjóðendur tjái sig um mál sem eru til meðferðar í þinginu. Enda hef ég sagt skilið við stjórnmál og það er alþingismanna að taka afstöðu til einstakra ákvæða frumvarpa. Umrætt frumvarp hafði verið í samráðsgátt þegar ég leysti af sem matvælaráðherra. Ráðuneytið vann úr þeim umsögnum sem komu fram í samráðsferli. Ákvæðið um leyfin sem vísað er til í fyrirspurn þinni var eins í því frumvarpi sem fór í samráðsgátt og því frumvarpi sem lagt var fram. Hvað varðar fyrirspurn þína um gjaldmiðlanotkun í frumvarpinu sem tók breytingum frá samráðsgátt er almenn regla í íslenskri löggjöf að miða við lögeyri landsins en ekki erlenda gjaldmiðla.“

Katrín hefur ekki fengist til að svara efnislega spurningum um aðkomu sína að frumvarpinu um lagareldið. Í fyrri svörum hennar til Heimildarinnar kemur fram að hún sé ekki lengur stjórnmálamaður og ráðherra og að ekki sé við hæfi að hún tjái sig um mál sem eru til meðferðar á Alþingi. „Almennt tel ég að forseti eigi ekki að tjá sig um mál sem eru til meðferðar á Alþingi og mér finnst það sama eiga við um forsetaframbjóðendur.“ Þetta svar endurtekur hún við Heimildina nú.

Einungis rúmur mánuður er síðan hún hætti sem forsætisráðherra til að taka þátt í forsetakosningunum í byrjun júní. Hún var settur matvælaráðherra þegar frumvarpinu um lagareldi var dreift á Alþingi í lok mars. …

Samkvæmt heimildum blaðsins var aðkoma Katrínar Jakobsdóttur að þessu lagareldisfrumvarpi mikil og ítarleg. Hún til dæmis kom því til leiðar að auka notkun á íslenskum krónum í lagagreinum um gjaldtöku á laxeldisfyrirtækin í frumvarpinu. Frumvarpið tók breytingum að þessu leyti frá því að það var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og þar til frumvarpinu var dreift á Alþingi þegar hún var settur matvælaráðherra.

Í lokútgáfu frumvarpsins var bætt við skýringu um að eðlilegt væri að nota íslenskar krónur um gjaldtöku í greininni. Þar segir um 76, grein þess: „Ástæða þess að fjárhæðaþrep eru sett fram í krónum, og gengið fastsett í 150 krónum á 120 móti evru, er fyrst og fremst viðleitni til þess að nota krónur í lagatexta í stað erlendra gjaldmiðla þar sem því verður við komið.“ …