Í meðfylgjandi fréttaskýringu Heimildarinnar kemur fram að í eina lögfræðiálitinu sem ráðuneytið lét gera um frumvarp um lagareldi er hvorki lagt til að leyfi í sjókviaeldi verði gerð ótímabundin né sagt að núgildandi lög feli sér í sér að leyfin séu í reynd ótímabundin.

Samt fór frumvarpið með ákvæði um að gera ætti leyfin ótímabundin til þingsins.

Þetta er langt í frá eina atriðið í frumvarpinu sem er beinlínis sniðið að hagsmunum sjókvíaeldisfyrirtækjanna í beinni andstöðu við hagsmuni almennings og umhverfis.

Það er rannsóknarefni hvernig það gat gerst í meðförum starfsfólks ráðuneytisins að augljósir sérhagsmunir fyrirtækja innan SFS náðu yfirhöndinni á kostnað almannahagsmuna við gerð þessa lagafrumvarps.

Og það í beinni mótsögn við lögfræðiálit sem var gagngert unnið fyrir ráðuneytið.

Í fréttaskýringu Heimildarinnar kemur fram:

Í lögfræðiáliti sem unnið var fyrir matvælaráðuneytið um frumvarp um lagareldi sem nú er til umræðu á Alþingi eru núgildandi lög um laxeldi ekki túlkuð þannig að rekstrarleyfin í greininni séu í reynd ótímabundin. Í álitinu, sem aðgengilegt er á vef Alþingis, segir Víðir Smári Petersen, dósent í lögfræði við Háskóla Íslands, orðrétt: „Í öllu falli er það álit undirritaðs að rekstrarleyfin séu ekki í raun ótímabundin eign handhafa þeirra.“

Umrætt lögfræðiálit er eina álitið frá utanaðkomandi lögfræðingi sem unnið var um frumvarpið um lagareldi fyrir matvælaráðuneytið.


Eftir að harðar umræður sköpuðust um laxeldisfrumvarpið sagði Bjarkey matvælaráðherra að hún væri reiðubúin að endurskoða þessa lagagrein frumvarpsins og hefur hún nú gert það með tillögum til atvinnuveganefndar Alþingis sem hefur frumvarpið til meðferðar. Bjarkey sagði að í málinu væri ljóst að lögfræðin og réttsýni almennings færi ekki saman í málinu. „Ég heyri það alveg að réttsýni almennings og lögfræðin fara ekkert endilega saman í þessu máli. […] Og mér og þinginu ber að hlusta á það. Og ég er tilbúin að fara í tímabundin leyfi.“

Óljóst hvaðan hugmyndin um ótímabundin leyfi kom
Vandamálið við þetta orðalag Bjarkeyjar um lögfræðina er að í eina lögfræðiálitinu sem ráðuneytið lét gera um frumvarpið er hvorki lagt til að leyfin í laxeldinu verði gerð ótímabundin né sagt að núgildandi lög feli sér í sér að leyfin séu í reynd ótímabundin.

Við Heimildina segir Víðir Smári: „Ég held að hún sé ekki að vísa í mitt lögfræðiálit. Ég tek ekkert afstöðu til þeirrar spurningar í álitinu hvort leyfin eigi að vera ótímabundin eða ekki og það kemur hvergi fram hjá mér að leyfin eigi að vera ótímabundin. En það hefur áhrif við heildarmatið í álitinu að gert var ráð fyrir því að leyfin væru ótímabundin.“

Þegar Bjarkey vísaði til „lögfræðinnar“ í svörum sínum á Alþingi um frumvarpið var hún því ekki að vísa til orða Víðis Smára heldur mats einhvers annars. Í svari frá matvælaráðuneytinu til Heimildarinnar segir um þetta að gildandi lög séu óljós um þetta atriði og vísaði til skýrslu Ríkisendurskoðunar um laxeldi: „Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kom fram að löggjöfin væri óljós varðandi þetta atriði. Segir þannig í ábendingu Ríkisendurskoðunar að „matvælaráðuneytið þurfi að taka af allan vafa um hvort rekstrarleyfi teljist tímabundin eða ótímabundin eign“.

Matvælaráðuneytið ákvað á endanum að rekstrarleyfin ættu að vera ótímabundin, áður en ráðuneytið ákvað að endurskoða þessa ákvörðun sína. Nákvæmlega hvaðan þessi hugmynd kom, frá hverjum, liggur enn ekki fyrir.