Þetta er sérstök afstaða. Þetta umdeilda frumvarp er þó á ábyrgð Katrínar að stórum hluta. Hún setti sitt mark á það þann tíma sem hún var í Matvælaráðuneytinu og þaðan fór það til þingsins þegar hún var enn starfandi matvælaráðherra.

Eðlilegt er að hún að svari af hverju hún vildi hafa í frumvarpinu ótímabundin afnot sjókvíaeldisfyrirtækjanna af fjörðum landsins og hvað henni finnist um gagnrýni okkar (og miklu fleiri) að frumvarpið uppfylli ekki einu sinni lágmarkskröfur um vernd náttúru og lífríki Íslands.

Í frétt/fréttaskýringu Heimildarinnar segir … ma.

Katrín Jakobsdóttir, forsetaframbjóðandi og fyrrverandi forsætisráðherra, vill ekki tjá sig um lagafrumvarp um laxeldi sem nú er til meðferðar á Alþingi og hún kom að sem settur matvælaráðherra. Þetta kemur fram í svörum frá Katrínu við spurningum Heimildarinnar um skoðanir hennar á frumvarpinu. Frumvarpið hefur vakið hörð viðbrögð, ekki síst vegna þess að samkvæmt því eiga laxeldisfyrirtækin á Íslandi að fá ótímabundin leyfi til að stunda sjókvíaeldi hér á landi. Þrír matvælaráðherrar úr VG hafa komið að frumvarpinu, Katrín, Svandís Svavarsdóttir og nú Bjarkey Gunnarsdóttir.

Þegar frumvarpinu var dreift á Alþingi í lok apríl eftir breytingar sem gerðar voru á því í matvælaráðuneytinu var hún settur matvælaráðherra og kom hún persónulega að ákveðnum breytingum sem gerðar voru á frumvarpinu samkvæmt heimildum. Auk þess sat hún fundi sem matvælaráðherra þar sem rætt var ítarlega um inntak frumvarpsins. Katrín vill samt ekki tjá sig um það efnislega og segist vera hætt afskiptum af stjórnmálum. „Almennt tel ég að forseti eigi ekki að tjá sig um mál sem eru til meðferðar á Alþingi og mér finnst það sama eiga við um forsetaframbjóðendur.“

Út frá svörum Katrínar er ljóst að hún hefur dregið strik í sandinn og ætlar ekki að tjá sig um mál sem hún kom að sem ráðherra og stjórnmálamaður á Alþingi þar sem hún er komin í nýtt hlutverk sem forsetaframbjóðandi. „Ég legg áherslu á að fylgja þeirri hefð að forseti hefji sig yfir alla flokkspólitík. Hann þarf að geta lagt mat á þau lög sem samþykkt eru á þingi, mál sem varða grundvallargildi, mál sem geta haft langtímaáhrif á samfélagið og djúpstæður ágreiningur er um – hvort að gjá hafi skapast milli þings og þjóðar.“

Eitt af því sem Heimildin spurði Katrínu að var hvort hún væri sammála eða ósammála því mati eftirmanns hennar á stóli formanns VG, Guðmundar Guðbrandssonar, að breyta eigi þeirri grein frumvarpsins um laxeldi sem kveður á um að leyfin í laxeldinu eigi að vera ótímabundin. Guðmundur vill að rekstrarleyfin í sjókvíaeldinu verði tímabundin í staðinn og hefur Bjarkey Gunnarsdóttir matvælaráðherra sagt að hún sé opin fyrir því að breyta ákvæðinu líka.

Katrín svaraði ekki þessari spurningu og liggur afstaða hennar til ótímabundnu leyfanna í laxeldinu því ekki fyrir með beinum hætti. Hún sá hins vegar ekki ástæðu til að breyta þessari lagagrein meðan frumvarpið var í vinnslu í matvælaráðuneytinu þegar hún var settur ráðherra. Ekki frekar en Svandís Svavarsdóttir og svo Bjarkey.

Katrín hefur hins vegar talað mjög fyrir því í gegnum tíðina að sett verði auðlindaákvæði í stjórnarskrá til að koma í veg fyrir að aðgangur að náttúruauðlindum eins og fiskveiðikvóta erfist á milli kynslóða eins og í íslenskum sjávarútvegi. Orðrétt hefur Katrín sagt um þetta: „Þetta mál er enn ein áminningin um nauðsyn þess að binda eignarhald þjóðarinnar á auðlindunum í stjórnarskrá. Þar verði undirstrikað að auðlindir verði aldrei afhentar varanlega og mikilvægt sé að þeir sem nýti auðlindir í ábataskyni greiði af því sanngjarnt gjald. Afnotaréttur á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar á aldrei að geta orðið varanlegur þannig að hann geti flust ítrekað á milli kynslóða líkt og um einkaeign sé að ræða. Ég tel algjörlega ljóst að það sé ekki vilji þjóðarinnar.”

Heimildin spurði Katrínu hvernig þessi orð hennar samræmis orðalagi laxeldisfrumvarpsins um að rekstrarleyfi í greininni séu ótímabundin. Katrín svaraði ekki þessari spurningu….