Leyfi fyrir sjókvíaeldi er samkvæmt núgildandi lögum tímabundin til 16 ára. Ríkisstjórnin vill nú ahenda þessi afnot af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar einkafyrirtækjum ótímabundið.
Það er engu líkara en lögfræðingar SFS hafi skrifað þetta frumvarp að stóru leyti.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, hjólaði í Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, nýjan matvælaráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma nú rétt í þessu. Hún hélt því fram að frumvarp sem Bjarkey mælir fyrir á morgun gangi út á að gefa sjókvíaeldisfyrirtækjum firðina um aldur og ævi.
„Lengi getur vont versnað hjá hæstvirtri ríkisstjórn. Nú ætlar þessi ríkisstjórn að gefa auðlindir þjóðarinnar — eða nánar tiltekið: Ríkisstjórnin ætlar að afhenda fiskeldisfyrirtækjum firðina okkar, varanlega. Með ótímabundnum rekstrarleyfum — sem hafa hingað til verið tímabundin, til 16 ára í senn og með möguleika á framlengingu að þeim tíma liðnum,“ sagði Kristrún.
…
Kristrún taldi ríkisstjórnina komna langt út af veginum. Hún sagði að nær öll þessi leyfi hafi verið gefin út án eldurgjalds á sínum tíma. En engu að síður ætli ríkisstjórnin núna að breyta lögum þannig að öll þessi rekstrarleyfi verði ótímabundin, og þar á meðal leyfi sem þegar hafa verið veitt, án endurgjalds.
„Hvað gengur fólki eiginlega til?“ spurði Kristrún.
…
„Þetta sé stjórnmálaflokkur sem hefur á tyllidögum talað um „þjóðareign auðlinda“ — og mikilvægi þess að taka upp ákvæði um þjóðareign auðlinda í stjórnarskrá, að vísu án árangurs. Hvers konar þjóðareign er það að gefa þessi leyfi með varanlegum hætti til einkaaðila? Hver eru rökin?“
Kristrún spurði hvað hafi breyst? Af hverju mega þessi leyfi ekki vera tímabundin eins og flest önnur nýtingarleyfi á náttúruauðlindum? Meira að segja orkufyrirtæki fá ekki nema tímabundin rekstrarleyfi.
„Ég spyr: Telur hæstvirtur ráðherra að það verði sátt um það í íslensku samfélagi að gefa laxeldisfyrirtækjum leyfi til að nota firðina okkar um aldur og ævi?
Haldið þið í alvörunni að þjóðin geti sætt sig við þetta — að þetta sé leiðin til að skapa samfélagslega sátt um þessa atvinnugrein, og áframhaldandi vöxt og verðmætasköpun?” …