„Innrás zombie laxanna“

Þetta er fyrirsögn fréttaskýringar sem birtist í Der Spiegel í dag um sjókvíaeldisiðnaðinn á Íslandi.

Heimurinn er að vakna og átta sig á því hversu miklum skaða þessi starfsemi veldur á umhverfinu, lífríkinu og eldisdýrum sínum.

Mikil tíðindi er að finna í þessari fréttaskýringu Der Spiegel. Þar lýsir Kristján Davíðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Landssamband fiskeldisstöðva, því yfir að hann vilji sjókvíar burt úr íslenskum fjörðum og segir að hann vilji laxeldi upp á land eða í úthafskvíar fjarri ströndum. „Norðmennirnir klúðruðu þessu. Svona tilraunamennska gengur ekki,“ segir Kristján við þýska tímaritið og leggur til strangari löggjöf, meiri fjarlægðir milli sjókvíaeldissvæða og hert eftirlit.

Hann virðist hins vegar ekki hafa trú á Alþingi. „Stjórnmálin eru slöpp á Íslandi vegna þess að við erum amatörar,“ segir Kristján, sem er stjórnarformaður Brims og nýkjörinn í bankaráð Landsbankans.

Við deilum ótta Kristjáns um að Alþingi bregðist á ögurstundu.

Þegar frumvarp um fiskeldi sniðið að hagsmunum sjókvíaeldisfyritækjanna, eins og nú er komið til þingsins í boði Svandísar Svavarsdóttur og Katrínar Jakobsdóttur, er mikil ástæða til að óttast að löggjöfin fari á versta veg.

Það má ekki gerast.