Það skýtur skökku við að á sama tíma og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra boðar í fjölmiðlum stóreflingu netöryggis á Íslandi þá hefur hún sýnt öryggi fjarskiptastrengjanna sem tengja Ísland við umheiminn einkennilegu sinnuleysi.

Farice, ríkisfyrirtækið, sem fer með rekstur sæstrengjanna, hefur allt frá 2020 freistað þess að knýja fram viðbrögð frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu vegna þeirrar stöðu að gert er ráð fyrir sjókvíaeldissvæðum innan helgunarsvæðis strengsins í Seyðisfirði.

Ráðherra og ráðuneytið hafa svarað öllum ábendingum með þögn.

Veruleg ástæða er til að hafa áhyggjur af þessari stöðu því sjókvíaeldisfyrirtækin hafa verið að fá leyfi þvert á ýmis lög og reglur sem eiga að tryggja öryggi almennings og það í beinni andstöðu við umsagnir þeirra stofnana sem eiga að gæta almannaöryggis.

Nýjasta dæmið eru leyfi Arnarlax fyrir sjókvíaeldi á svæðum í Ísafjarðardjúpi sem Samgöngustofa segir að ógni öryggi sæfarenda. Dugði sú umsögn þó Matvælastofnun ekki til að synja Arnarlaxi um leyfin, ótrúlegt en satt.

Mikilvægi Farice strengjanna er skilgreint sem þjóðaröryggismál en forsætisráðherra hverju sinni er formaður Þjóðaröryggisráðs.

Myndin sýnir legu Farice strengsins í Seyðisfirði. Útilokað er að koma þar fyrir sjókvíum án þess að fara inn fyrir helgunarsvæðið. Myndin er frá VÁ – félagi um vernd fjarðar sem berst gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði og nýtur stuðnings 75 prósent heimafólks á Seyðisfirði.