Eins og kemur fram í þessari fréttaskýringu Heimildarinnar er stór hluti sjókvíaeldiskvía við Ísland staðsettur innan siglingaleiða og hvíts ljósgeisla vita.

Það sem er með ólíkindum, er að þrátt fyrir að þessar staðsetningar séu skýrt brot á lögum um vitamál og öryggi siglinga þá aðhafast stjórnvöld ekkert. Lögbrotin eru full framin og fá að viðgangast áfram. Þetta er óskiljanleg staða.

Þegar innviðaráðuneytinu var bent á þessa brotastarfsemi voru viðbrögðin að skipa nefnd til að skoða mögulegar „mótvægisaðgerðir“.

Sjókvíaeldisfyrirtækin þurfa sem sagt ekki að fara að lögum heldur eru stjórnvöld að skoða hvernig hægt er að hjálpa þeim að komast fram hjá þeim!

Í umfjöllun heimildarinnar segir m.a.

Stór hluti sjókvía sem notaðar eru fyrir laxeldi í íslenskum fjörðum eru staðsettar innan siglingaleiða vegna þess að þær eru innan hvíts ljósgeira frá vitum hér á landi. Þetta kemur fram í opinberum gögnum sem fyrir liggja um málið, meðal annars í gögnum og samskiptum stofnana eins og Vegagerðarinnar, Samgöngustofu og Matvælastofnunar. Á Austfjörðum eru til dæmis 12 af 16 eldissvæðum innan hvíts ljósgeira eða samtals 75 prósent af þeim eldisstæðum sem þar er að finna. Bara í Reyðarfirði eru fimm sjókvíaeldissvæði innan hvíts ljósgeira frá Vattarnesvita. Þetta stangast á við lög um vita.

Leyfi voru veitt til að setja niður sjókvíar á svæðum í íslenskum fjörðum þar sem leyfi fyrir þeim hefði ekki átt að vera veitt í ljósi siglingaöryggis. Fjölmörg dæmi eru um þetta bæði á Vestfjörðum og Austurlandi. Þetta kemur til dæmis fram í umsögn Vegagerðarinnar um áhættumat siglingaöryggis í Kvígindisdal í Patreksfirði. „Eins og fram kemur í áhættumatinu er hluti fiskeldissvæðisins við Kvígindisdal innan hvíts ljósgeira frá Ólafsvita, þ.e. í merktri siglingaleið. Ekki er ásættanlegt með tilliti til siglingaöryggis að setja neinar hindranir innan hvíts ljósgeira eða innan 50 metra frá mörkum hans.“

Þegar leyfi laxeldisfyrirtækja á tilteknum svæðum á Vestfjörðum og Austurlandi, renna út þarf því að endurnýja leyfin með hliðsjón af þessu og eftir atvikum láta færa sjókvíarnar svo þær séu ekki innan hvíts ljósgeira frá vitum sem stuðla eiga að siglingaöryggi.

Í gildi eru alþjóðlegar reglur, svokölluð SOLAS-samþykkt, þar sem kveðið er á um að búnaður eins og sjókvíar megi ekki vera inni í ljósgeirum frá vitum. Fjallað er um þessa samþykkt í bréfi Samgöngustofu þar sem meðal annars er listað upp hvaða kvíar eru innan hvíts ljósgeira hér á landi.

Í bréfinu segir: „Samkvæmt Alþjóðasamningi um öryggi mannslífa á hafinu, svokallaðri SOLAS samþykkt, skal, skv. 2. mgr. 13 gr. í V. kafla, taka mið af alþjóðlegum tilmælum og viðmiðunarreglum þegar sett eru upp sjómerki til að sjófarendur upplifi kerfið sem einsleitt og það virki á sama hátt á alþjóðavísu. Ísland hefur fullgilt samninginn og hefur hann haft gildi hér frá 16. október 1983. Þannig ber að fylgja tilmælum og viðmiðunarreglum alþjóðavitasamtakanna IALA, sem tilgreina í viðmiðunarreglu IALA G10411 um geiraljós, að hvítur geiri merki örugga leið (e.white sector indicates safe passage).“

„Stjórnsýslulega klusterfokkið“ sem heimildarmaður blaðsins innan úr stjórnkerfinu vísar var því að íslenskar stofnanir tóku ekki tillit til þessara samþykktar þegar eldissvæðum var úthlutað til laxeldisfyrirtækja hér á landi.