Við hjá IWF stöndum ásamt Björk, Landvernd, NASF, Ungum umhverfissinnum og fleirum að breiðfylkingu sem hefur fengið nafnið AegisWatch
Laxeldi í opnum sjókvíum skaðar umhverfið og ógnar tilveru íslenska villta laxastofnsins. Laxinn eignaðist sín óðul í ám landsins mörg þúsund árum áður en fólk nam hér land.
Íslensku laxastofnarnir koma úr afmarkaðri þróunarlínu sem er einstök fyrir Norður Atlantshafslaxinn. Talið er að íslensku villtu laxarnir séu um 60.000 talsins. Í hverri á er sérstakur stofn sem hefur aðlagað sig umhverfi hennar á þúsundum ára.
Erfðablöndun við eldislax sem sleppur úr sjókvíum hefur skelfilegar afleiðingar fyrir villta laxastofna. Eldisgenin skerða verulega getu þeirra til að lifa af í náttúrunni. Stöðug slík erfðablöndun mun á endanum leiða til útrýmingu villta laxins.
Öll mengun í sjókvíaeldi rennur óhindrað í sjóinn í gegnum möskva netapokanna. Saur fiska, fóðurleifar, skordýraeitur, lyf, örplast og þungmálmar flæða óhindrað í gífurlegu magni í gegnum möskvana. Kemísku efnin og örplastið eru banvæn fyrir lífríki hafsins.
Baráttan gegn sjókvíaeldi er hluti af baráttunni fyrir framtíð jarðarinnar. Laxeldi í opnum sjókvíum er ekki aðeins dýrkeypt fyrir umhverfið og lífríkið heldur veldur það miklum þjáningum fyrir milljónir eldislaxa. Þetta er miskunnarlaus og ómannúðleg aðferð við að framleiða matvæli.
Aegis er hreyfing sem berst gegn laxeldi í opnum sjókvíum.