Svona líta um ein milljón eldislaxa út í sjókvíum Arctic Fish og Arnarlax á Vestfjörðum.
Áverkarnir á lifandi eldislöxum í sjókvíum þessara fyrirtækja eru svo hræðilegir að við höfum aldrei séð annað eins, né vitum til að nokkuð þessu líkt hafi átt sér stað í sjókvíaeldi i öðrum löndum.
Hver einasti eldislax sem sést svamla um í dauðateygjum í myndskeiðunum sem birt eru í frétt Heimildarinnar í dag er með meiriháttar sár sem þekja allt höfuð þeirra. Laxaúsin hefur étið hreistur og hold inn að beini og bakteríusýkingar sem blossa upp í sárunum gera þau enn hræðilegri.
Þetta er ekki aðeins alvarlegasta dýravelferðarmál sem hefur komið upp í eldi og húsdýrahaldi hér á landi heldur örugglega eitt það versta í sögu sjókvíaeldis í heiminum.
Ganga má út frá því sem vísu að myndböndin sem Veiga Grétarsdóttir Sulebust fangaði í Tálknafirði verði sýnd í fréttatímum víða um lönd.
Mowi, aðaleigandi Arctic Fish, er stærsta sjókvíaeldisfyrirtæki í heiminum. Það er heimsfrétt hvernig það stendur að verki.
Þjáningar vesalings eldislaxanna hafa verið ólýsanlegar.
Norsk sjókvíaeldisfyrirtæki hafa ítrekað verið staðin að því slátra fiski sem er illa farinn af lús, skera burt lúsaskaðann og senda stykki á markað sem til dæmis fiskborgara.
Hugsið ykkur að neytendum skuli vera boðið upp á bita af skepnum sem hafa þjáðst með þessum hætti.
Eldislaxar Arctic Fish hafa þó líklega allir farið í förgun, svo hræðilega illa voru þeir útleiknir.
Einu réttu viðbrögðin við svona ástandi er að svipta þau fyrirtæki sem fara svona með dýr strax starfsleyfi.
Norskir forstjórar eru hjá Arctic Fish og Arnarlaxi. Við Íslendingar höfum því ekki aðeins flutt inn þessa ömurlegu tækni við laxeldi heldur einnig slæma siði sem iðnaðurinn hefur tamið sér í Noregi.