Umgjörð stjórnvalda er í molum og innra starf þessa fyrirtækis er það líka. Um það þarf ekki að rökræða. Eldislax syndir útum rifin net sjókvíar sem sem fyrirtækið trassar að hafa neðansjávareftirliti með, eldislaxinn er kynþroska vegna þess að fyrtækið er ekki með ljósastýringarbúnað í lagi og nýjasti hörmungarkaflinn er aflífun hundruð þúsunda eldisdýra til að lina óbærilegar þjáningar þeirra vegna lúsasmits sem Arctic Fish lét verða óviðráðanlegt.
Þetta eru bara dæmi frá síðustu tveimur mánuðum og nú er komið í ljós og staðfest að þann tíma hefur fyrirtækið verið án leyfis.
Hverskonar rugl er þetta?
Flóki Ásgeirsson, lögmaður náttúruverndarsamtakanna Laxinn lifi, segir samtökin engin viðbrögð hafa fengið frá Matvælastofnun eða matvælaráðherra við kröfu sinni um tafarlausa stöðvun á starfsemi laxelda Arctic Sea Farm í Patreksfirði og Tálknafirði. Leyfi fyrirtækisins til sjókvíaeldis í fjörðunum féll úr gildi 27. ágúst og hefur ekki fengist endurnýjað.
Fyrirtækið sótti um endurnýjun í desember í fyrra, en beðið er mats Vegagerðarinnar á áhrifum sjókvíanna á öryggi siglingaleiða. Á meðan hefur Matvælastofnun ekki vald til þess að gefa út bráðabirgðaleyfi eða endurnýjað leyfi.
Stofnunin hefur hins vegar heimildir til þess að stöðva starfsemina þar sem leyfið er útrunnið, …
Flóki segir lögin vera skýr. „Hvað varðar starfsemina sem er í gangi núna, að því er virðist án leyfis, þá er alveg skýrt í lögum um fiskeldi að slíka starfsemi á að stöðva.“ Það sé ekki Matvælastofnunar að leggja mat sitt á það, heldur beri henni einfaldlega að stöðva starfsemina.
Starfsemin hefur veruleg áhrif á umhverfið að sögn Flóka, og við það bætist fréttir af því að eitrað var fyrir laxalús í sumum kvíanna. „Og það virðist vera í þessu tilviki að það sé gert án þess að þar sé starfsleyfi fyrir hendi,“ segir Flóki.
Laxinn lifi hefur ekki fengið nein viðbrögð eða svör við erindi sínu, hvorki frá Matvælastofnun né ráðherra. Flóki segir að búið sé að kalla eftir upplýsingum um starfsleyfið um nokkurt skeið án þess að hafa fengið svör og því hafi verið ákveðið að senda erindið. Flóki segir að næstu skref séu einfaldlega þau að ganga á eftir því að fá svör og viðbrögð.
Hvað stendur í lögum um fiskeldi?
Í 21. grein C í lögum um fiskeldi stendur:
Ef fiskeldisstöð er rekin án þess að rekstrarleyfi [eða staðfest skráning skv. 5. gr.] sé í gildi skal Matvælastofnun stöðva starfsemina. Eftir þörfum ber lögreglu að veita Matvælastofnun liðsinni í því skyni. Matvælastofnun er heimilt að slátra eða farga eldisdýrum, fjarlægja búnað sem notaður hefur verið til starfseminnar og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir skv. 21. gr. b á kostnað þess aðila sem rekið hefur fiskeldisstarfsemi án leyfis. [Eldisdýr sem hæf eru til manneldis skulu seld og andvirðið, að frádregnum kostnaði Matvælastofnunar við söluna, skal renna í ríkissjóð hafi aðili hafið starfsemi án rekstrarleyfis [eða staðfestrar skráningar] en ella til fyrrverandi [rekstraraðila].]
[[Sé rekstrarleyfi fellt úr gildi getur Matvælastofnun í sérstökum undantekningartilvikum, enda mæli ríkar ástæður með því, gefið út rekstrarleyfi til bráðabirgða til allt að eins árs berist umsókn þess efnis frá handhafa þess leyfis sem var fellt úr gildi innan þriggja vikna frá því að leyfi var fellt úr gildi.] Umsókn um rekstrarleyfi til bráðabirgða skal afgreidd eins fljótt og mögulegt er og eigi síðar en fjórum vikum eftir að umsókn berst. Í umsókn skal tilgreina með skýrum hætti tilgang rekstrarleyfis til bráðabirgða, ástæður þess og fyrirhugaðar aðgerðir á gildistíma bráðabirgðaleyfisins.Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal Matvælastofnun ekki stöðva rekstur fiskeldisstöðvar fyrr en fyrir liggur hvort sótt verði um rekstrarleyfi til bráðabirgða. [Berist umsókn um rekstrarleyfi til bráðabirgða skal ekki stöðva rekstur meðan umsókn er til meðferðar.] Rekstrarleyfi til bráðabirgða skal vera efnislega innan marka þess leyfis sem áður var í gildi.
Ákvörðun um rekstrarleyfi til bráðabirgða [skal] byggja á gögnum sem aflað hefur verið við undirbúning þess rekstrarleyfis sem fellt var úr gildi. Þá getur [Matvælastofnun] sett rekstrarleyfi til bráðabirgða þau skilyrði sem þörf er á svo að tilgangur leyfisins náist, svo sem um samdrátt þeirrar starfsemi sem þegar er fyrir hendi, um tímafresti vegna úrbóta eða um tímamörk málshöfðunar eða annarra athafna fyrir dómi sem eru á forræði aðila.
[Sé rekstrarleyfi fellt úr gildi vegna annmarka á umhverfismati samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana skal Matvælastofnun auk framangreindra skilyrða tryggja að rekstrarleyfi til bráðabirgða sé bundið þeim skilyrðum sem kveðið er á um í 2. mgr. 25. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021.] Rekstrarleyfi til bráðabirgða samkvæmt þessari málsgrein er heimilt að endurútgefa einu sinni.
[Matvælastofnun skal vinna tillögur að rekstrarleyfum til bráðabirgða og auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögur Matvælastofnunar innan viku frá auglýsingu. Matvælastofnun skal tilkynna Umhverfisstofnun, umsækjanda um rekstrarleyfi til bráðabirgða og þeim sem hafa gert athugasemdir við tillögu um afgreiðslu rekstrarleyfis til bráðabirgða.
Matvælastofnun skal auglýsa á vefsíðu sinni útgáfu og gildistöku rekstrarleyfis til bráðabirgða. Birting á vefsíðu Matvælastofnunar telst vera opinber birting. Í auglýsingunni skal tilgreina hvar greinargerð um afgreiðslu leyfis er aðgengileg og tilgreina um kæruheimild og kærufrest. Ákvörðun Matvælastofnunar um veitingu rekstrarleyfis til bráðabirgða er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan mánaðar frá því að ákvörðun var birt opinberlega. Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um umsókn, málsmeðferð og skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi fyrir veitingu rekstrarleyfis til bráðabirgða samkvæmt þessari grein.