Fastagestur í athugasemdakerfi þessarar síðu, Björn Davíðsson, vakti athygli okkar í gær á ljósmynd af stjórnstöð fóðrunar hjá Fiskeldi Austfjarða, birtist á Facebooksíðu Guðmundar Gíslasonar forstjóra félagsins.

Myndin gefur tilefni til að rifja upp áform norsku eigenda fyrirtæksins um að flytja störf við fóðurstýringu til Noregs.

„Stefnt er að því að allri fóðrun í kvíum Fiskeldis Austfjarða hf. verði fjarstýrt frá Noregi,“ segir í frétt sem birtist á Vísi. Í fréttinni lýsir Norðmaðurinn Roar Myrhe hvernig tæknin geri það í raun kleift að sinna þessu starfi hvaðan sem er ef réttar fjarskiptatengingar eru til staðar.

Þessi störf eru sem sagt ekki staðbundin á neinn hátt.

Norsku eigendurnir ætluðu að færa þessi störf til Noregs árið 2019 en hættu við þegar þeir áttuðu sig á því að það væri ekki skynsamlegt á meðan þeir eru enn að keyra í gegnum kerfið ný leyfi fyrir sjókvíaeldi, þar á meðal í Seyðisfirði þvert á vilja íbúa, með það sem aðalrök að þeir séu í „atvinnusköpun“ fyrir austan.

Stjórnendur fyrirtækja hafa það alltaf í forgangi að hámarka arðsemi eigenda þeirra. Fiskeldi Austfjarða er búið að sýna okkur á spilin.

Björn Davíðsson fær þakkir fyrir ábendinguna.

Í frétt vísis segir:

Stefnt er að því að allri fóðrun í kvíum Fiskeldis Austfjarða hf. verði fjarstýrt frá Noregi innan tíðar. Þetta kemur fram í viðtali við Roar Myrhe, framkvæmdastjóra norska eldisfyrirtækisins Midt-Norsk Havbruk, í tímaritinu Intrafish í síðustu viku. Norska fyrirtækið á 62 prósenta hlut í Fiskeldi Austfjarða.

„Við munum gera prófanir í haust og ganga úr skugga um að allar tengingar séu öruggar með það að markmiði að geta hafið fóðrunina í janúar 2019,“ segir Myrhe í samtali við tímaritið. Hann segir að fóðruninni verði stýrt frá starfstöð fyrirtækisins í Rorvik í Noregi og þeir starfsmenn sem komi til með að stýra fóðruninni muni ekki hafa önnur störf með höndum. Frá stjórnstöðinni í Rorvik muni þeir hafa fullkomna yfirsýn yfir það sem fram fer í eldisstöðinni á Austurlandi í gegnum nema, myndavélar og aðrar upplýsingar. Hin nýja tækni muni gera fyrirtækinu kleift að fjarfóðra fiskinn jafnvel í vondu veðri þegar erfitt getur verið að komast á staðinn.

… Ef litið er til þróunar í sjávarútvegi hefur störfum í veiðum og vinnslu fækkað um helming á rúmum tveimur áratugum. Í skýrslu Hugins Freys Þorsteinssonar, sem unnin var fyrir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, er fjallað um tæknibyltinguna sem skilað hefur mikilli hagræðingu og fækkun starfa í veiðum og vinnslu. Þannig hafi störf í veiðum og vinnslu verið 16.000 árið 1995 en hafi fækkað um helming og séu nú aðeins í kringum 8.000, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni.

Aðspurður segist Huginn ekki þekkja nægilega til starfa í fiskeldi til að segja til um hvort sjálfvirkni geti leyst þau af hólmi, þótt sú þróun hafi vissulega orðið í sjávarútvegi. Þar hafi ný hátæknistörf orðið til í staðinn, segir Huginn og bendir á fyrirtækið Marel sem augljóst dæmi.