Á einu bretti hefur nú leyfum fyrir eitrunum fjölgað úr 35 í 43 í sjókvíaeldi fyrir vestan.

Að fulltrúar MAST kalli þetta óvenjulegt ástand þykir okkur merkilegt því saga þessa iðnar í öðrum löndum segir okkur að það mátti búast við því að þróunin yrði nákvæmlega þessi með vaxandi umfangi.

Sérfræðingar MAST héldu því reyndar fram vorið 2017 að lúsin yrði ekki vandamál hér einsog í öðrum löndum og reyndust hafa alrangt fyrir sér þar.

Að kalla ástandið nú „óvenjulegt“ er hluti af sömu meðvirkni hjá MAST og þegar fulltrúi hennar fullyrti að eldislaxarnir sem sluppu frá Arctic Fish í Patreksfirði í haust væru ekki kynþroska. Það reyndist alrangt líka einsog kom svo í ljós.

Starfsmenn stofnunarinnar verða að fara að gera sér grein fyrir að þeir hafa eftirlitsskyldu að gegna gagnvart þessum skaðlega iðnaði sem sjókvíaeldið er. Það er ekki hlutverk þeirra að gera lítið úr skaðanum sem sjókvíaeldisfyrirtækin valda á lífríkinu og eigin eldisdýrum með orðalagi í opinberum tilkynningum.

Lúsin fer hræðilega með eldislaxana. Um 20 prósent þeirra drepast í sjókvíunum á ári hverju. Þar af stór hluti vegna lúsar og meðferðar við henni.

Sjókvíaeldi er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu.

Í frétt Vísis er vitnað í tilkynningu frá MAST:

„Þar segir að um sé að ræða tvö eldissvæði í Tálknafirði, fjögur eldissvæði í Arnarfirði og tvö í Dýrafirði. Svæðin verða meðhöndluð með baðlyfi annars vegar og lyfjafóðri hins vegar.

„Lúsalyf geta haft neikvæð áhrif á vistkerfi í nærumhverfi eldiskvía. Eins sýnir reynsla nágrannalanda að laxalús getur myndað ónæmi gegn lyfjum. Þess vegna er notkun lyfja í baráttunni gegn lús úrræði sem ekki skal beita nema í algerri neyð. Því hefur Matvælastofnun hvatt fyrirtæki til þess að leita leiða til að ná tökum á lúsaálaginu með öðrum aðferðum, en í þessum tilvikum var nauðsynlegt fyrir fyrirtækin að grípa inn í með lyfjameðhöndlun,“ segir í tilkynningunni.“