„Það að lax gangi upp í laxveiðiá þýðir ekki erfðablöndun. Það að lax blandist í einhverjum tilvikum við villta laxinn það þýðir ekki að villta stofninum stafi hætta af. Þetta þarf að vera viðvarandi verulegt ástand ekki bara í eitt ár heldur í áratugi,“ þetta sagði framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) í Kastljósi í gærkvöldi og komst þar að kjarna málsins, þótt hún hafi örugglega ekki áttað sig á því sjálf þegar hún lét þessi orð falla.
Sjókvíaeldi með frjóum norskum eldislaxi hefur nú þegar verið stundað við Ísland í á annan áratug og SFS er ekki aðeins að berjast fyrir að það verði stundað áfram um ófyrirséða framtíð heldur vilja samtökin að netapokaeldið verði margfaldað.
Sleppifiskur úr sjókvíaeldi hefur þegar skaðað íslenska villta stofna enda hefur fiskur verið að sleppa úr kvíum frá 2010.
Talskona SFS veit einmitt vel hvaða afleiðingar þessi starfsemi hefur. Samt vilja samtökin halda þessu feigðarflani áfram.
Af hverju er íslenskur sjávarútvegur að berjast fyrir því að þessir gríðarlegu mengunarvaldar fylli firðina fyrir vestan og austan? Úr sjókvíunum streymir ekki bara skítur og fóðurleifar beint í hafið heldur líka, skordýraeitur, lyfjafóður, þungmálmurinn kopar og ómælt magn af örplasti.
Sleppifiskurinn, sníkjudýrin og sjúkdómarnir sem grassera í kvíunum er svo annar kafli.
Við mælum með áhorfi á þessu viðtali Bergsteins Sigurðssonar við Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur frá SFS og Gunnar Örn Petersen frá Landsambandi veiðifélaga.
Í umfjöllun RÚV kom m.a. fram:
Gunnar Örn segir ástandið núna vera umhverfisslysið sem varað hafi verið við um árabil. „Þá á ég við þær sleppingar sem hafa átt sér stað á undanförnum árum. Það er í rauninni bara að raungerast í dag að eldislax er að hellast upp í laxveiðiár og að hellast upp í laxveiðiár talsvert langt frá kvíum.“
Gunnar segir hættuna við þetta felast í því að eldislaxinn taki þátt í hrygningu með villta laxinum. „Laxastofnum sem eru búnir að eiga sér mörg þúsund ára þróunarsögu og laga sig að aðstæðum. Svo kemur eldislaxinn og tekur þátt í hrygningu og þannig erfðablandast villti stofninn. Til lengri tíma litið hefur það veruleg áhrif á færni hans til viðgangs og veikir stofninn verulega.“ …
Heiðrún Lind segir að þess sé gætt í allri umgjörð um sjókvíaeldi að nytjastofnar villtra laxins beri ekki skaða af. „Það er ekki óvænt í sjókvíaeldi að laxar sleppi, það er ástæðan fyrir því að við erum með áhættumat erfðablöndunnar. Þar sem vísindin, sem við verðum að treysta, hafa metið hversu umfangsmikið laxeldið má verða og hversu hátt hlutfall strokulaxa getur gengið í ár án þess að villta laxastofninum stafi hætta af.“
Heiðrún segir að erfðablöndun geti hafa átt sér stað. „Það er miðað við það að hlutfall strokulaxa í laxveiðiám, skilgreindum, sé að hámarki 4%. Miðað við síðustu sex ár þar sem að tekin hafa verið sýni eða veiddir eldislaxar. Þá er þetta hlutfall 0,09% þannig að við erum hvergi nærri 4%.“ …
Hún segir laxeldisfyrirtækin að auki bregðast við með margvíslegum mótvægisaðgerðum til að draga úr líkum á að laxar sleppi. „Þau eru með minnkun möskva þannig að það sé minni hætta á að seiði sleppi, það eru stærri seiði sem eru sett út. Það eru ljósastýringar til að koma í veg fyrir að laxinn verði kynþroska.“
Aðspurð hvort áhyggjur af þeim löxum með eldiseinkenni sem nú finnist í laxveiðiám séu ástæðulausar vill Heiðrún meina að svo sé að mestu. „Já, eða ég ætla ekki ástæðulausar. Við eigum að gefa þessu gaum og það verður að fylgjast með þessu og við eigum að reyna að lágmarka þetta. En þetta er það sem vitað er að geti gerst og muni gerast þegar við erum að ala lax í sjó.
Þannig að þetta er ekki óvænt. Það að lax gangi upp í laxveiðiá þýðir ekki erfðablöndun. Það að lax blandist í einhverjum tilvikum við villta laxinn það þýðir ekki að villta stofninum stafi hætta af. Þetta þarf að vera viðvarandi verulegt ástand ekki bara í eitt ár heldur í áratugi.“ …
Gunnar Örn segir að Heiðrún líti fram hjá því að víða á Íslandi sé yfir 4% hlutfall eldislaxa í ám. „Þá er Heiðrún að horfa fram hjá þessum litlu ám á Vestfjörðum og við teljum að sjálfsögðu að þeir laxastofnar séu líka mikilvægir.“
Gunnar nefnir líka að viðbúið sé að ástandið verði viðvarandi og verulegt til áratuga ef ekkert verði að gert. „Það er bara það sem mun gerast, 80.000 fiskar sem sluppu út árið 2021, núna einhverjar þúsundir. Það er þetta sem mun gerast og þetta hefur alltaf gerst og reynsla nágrannaþjóða okkar sýnir það. Það er þetta sem mun ganga að villtu stofnunum dauðum.“