Þetta er staðan. Vaðandi eldislax í ám á Vestfjörðum og líka í landshlutum víðsfjarri eldissvæðunum.
Svo vilja þessi fyrirtæki auka sjókvíaeldi við Ísland.
Auðvitað á að stoppa þessa vitleysu með því að hætta útgáfu nýrra leyfa og setja inn sólarlagsakvæði um núgildandi leyfi þannig að þau verði afnumin í áföngum á næstu árum.
Heimildin ræddi við Guðna Magnús Eiríksson, starfsmann Fiskistofu:
„Það voru og eru laxar í Mjólká og þegar að svoleiðis er þá er mjög líklegt að það geti verið einhverjir eldislaxar þar. Það sem við gerðum var að veiða fiska og velja þá sem voru með einhver eldiseinkenni. Það veiddust alls átta fiskar, þremur var sleppt og fimm voru sendir til greiningar. En það liggur ekki fyrir niðurstaða úr þeirri greiningu: Hvort þetta hafi verið eldisfiskar eða villtir laxar,“ segir Guðni Magnús og bætir því við einkennin hafi verið „minniháttar uggaskemmdir“.
Greiningin tekur mögulega um mánuð: „Ég myndi halda að niðurstöðu sé að vænta innan fjögurra vikna.“
… Greint var frá því í síðustu viku að göt hefðu fundist á sjókví fyrirtækisins og veiddust eldislaxar í kjölfarið í nágrenni við umrædda kví. Á þessari stundu liggur ekki fyrir hversu margir eldislaxar sluppu úr þeirri kví. …
Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri ferskvatnslífríkis hjá Hafrannsóknarstofnun, segir aðspurður að eldislaxarnir fimm séu farnir í greiningu. „Fiskistofa fór í þennan leiðangur um daginn, í Mjólká. Þetta eru einu staðfestu fiskarnir. Svo höfum við verið að heyra af og sjá grunsamlega fiska í teljurum. En þetta eru óstaðfestir fiskar.“
Myndir úr laxateljurum sem sýna mögulega eldislaxa, meðal annars úr Laugardalsá á Vestfjörðum, hafa einnig ratað í umfjöllun fjölmiðla, meðal annars á mbl.is í gær.
Guðni segir að hann hafi heyrt af tveimur meintum eldislöxum sem eru á leiðinni til Hafrannsóknarstofnunar til greiningar. Þessir laxar eru úr Laxá í Dölum og Staðarhólsá og Hvolsá. „En þetta eru bara meintir eldislaxar ennþá.“
Ingimundur Bergssson, framkvæmdastjóri Stangveiðifélags Reykjavíkur sem er leigutaki Laugardalsár, segir að einn ætlaður eldislax hafi veiðst í ánni sem hann veit um. „Þessi fiskur er á leiðinni til Hafrannsóknarstofnunar. Þeir skoða þetta bara þar.“