Og sjókvíaeldisfyrirtækin vilja margfalda magnið af eldislaxi í netapokum við Ísland þrátt fyrir að þau ráði ekki einu sinni við það magn sem er þar nú þegar.
Eldisdýrin ýmist drepast í stórum stíl í sjókvíunum eða sleppa út með hörmulegum afleiðingum fyrir villta íslenska laxinn.
Þetta er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu.
Morgunblaðið fjallaði um grunaða „Patreksfirðinga“ sem veiðast víða:
„Grunsamlegur fiskur veiddist í Hópinu í síðustu viku og eins og myndir sem Sporðaköst fengur sendar benda sterklega til þess að um eldislax sé að ræða. Sýni hafa verið send til sérfræðinga til að fá úr uppruna fisksins skorið.
Lax veiddist í Hvolsá og Staðarhólsá í Dölum og er talið næsta víst að um eldislax sé að ræða. Sá fiskur veiddist í Hvolshyl um sjö kílómetra frá ósnum. Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar voru í næsta nágrenni og tók þeir fiskinn með sér til rannsóknar á honum.
Einn slíkur veiddist í Laxá í Dölum.
Í dag vakti NASF á Íslandi athygli á því að þrír laxar hefðu sést í laxateljaranum í Laugardalsá og bera þeir allir þess merki að vera eldislaxar. Á facebooksíðu NASF eru birtar myndir úr teljaranum og sjást á þessum fiskum mörg þau einkenni sem eldislaxar bera með sér. Rifnir uggar og skemmdur sporður svo eitthvað sé nefnt. …
Það sem eykur grunsemdir manna í þessum tilvikum er að fiskurinn sem slapp úr kvíum í nágrenni Patreksfjarðar var talinn í kringum sex kíló og þeir fiskar sem grunsemdir beinast að eru af þeirri stærð. Fiskurinn í Hópinu var þannig sjö kíló og fiskurinn í Hvolsá var sex kíló. Fiskarnir sem sáust í teljaranum í Laugardalsá virðast líka vera af þessari stærð.“