Núgildandi áhættumatmat um erfðablöndu heimilar allt að 106.500 tonna ársframleiðslu af sjókvíaeldislaxi við Ísland. Nýtt mat er væntanlegt frá Hafrannsóknastofnun á næstu vikum og mun það hafa grundvallaráhrif á þróun sjókvíaeldis við Ísland næstu þrjú ár.
Sú geigvænlega erfðablöndun, sem nýútgefin skýrsla Hafrannsóknastofnunar sýnir, varð þegar ársframleiðslan var 6.900 tonn, eða 1/15 af því sem stofnunin taldi óhætt að leyfa þegar síðasta áhættumat var gefið út í mai 2020.
Gögnin sem eru til grundvallar í þessari nýbirtu erfðablöndunarrannsókn eru hins vegar frá 2020. Frá þeim tíma hefur sjókvíaeldi margfaldast við Ísland. Hvorki Hafró né nokkur önnur stofnun hefur því hugmynd um hvernig staðan er nú. Við vitum hins vegar frá öðrum löndum að með auknu magni af eldislaxi í sjókvíum þá snareykst erfðablöndun við villtan lax.
Ómögulegt er því að álykt annað en að Hafrannsóknstofnun lækki verulega framleiðsluheimildir í sjókvíaeldi, eða hreinlega banni það nema framleiðendur geti tryggt að enginn fiskur sleppi, sem þeir geta ekki.
Heimildin ræddi meðal annars við Guðna Guðbergsson, sviðsstjóra ferskvatns- og eldissviðs Hafranssóknastofnunar.
„Samkvæmt lögum sem sett voru árið 2019 á Hafrannsóknarstofnun að skila nýju áhættumati á þriggja ára fresti. Síðasta áhættumat var gert opinbert í maí árið 2020. Stóru tíðindin í því áhættumati var að opnað var fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi á Vestfjörðum en þetta hafði verið umdeilt í umræðunni um eldið hér á landi.
Guðni segir hins vegar að lögin tilgreini ekki neina nákvæma dagsetningu um útgáfu áhættumatsins. „Það segir ekkert í sjálfu sér um dagsetningu þannig. Það er þá miklu nær að vanda til verka eins og hægt er. Það hafa bara verið að berast gögn sem vinna hefur þurft úr. Þetta er á góðri leið í vinnslu hjá okkur en þetta þarf að fara í rýni, eins og lögin kveða á um. Það er ekki langt í skýrsluna.“
Mikilvægt mat
Áhættumat Hafrannsóknarstofnunar erfðablöndunar er mikilvægt gagn vegna þess að það kveður á um hversu mikið laxeldi er leyfilegt í íslenskum fjörðum. Til að mynda var hámarkslífmassi af eldislaxi við Ísland hækkaður umtalsvert í mati Hafrannsóknarstofnunar á milli áranna 2017 og 2020. Árið 2017 taldi Hafrannsóknarstofnun að hámarkslífmassinn skyldi vera 71000 tonn en árið 2020 var þessi tala komin upp í 106500 tonn. Aukningin var því rúmlega 50 prósent.Niðurstaða Hafrannsóknarstofnunar um þetta efni skiptir máli vegna þess að á grundvelli áhættumatsins er hægt að réttlæta frekara laxeldi á Íslandi með útgáfu nýrra leyfa á nýjum stöðum. Ef Hafrannsóknarstofnun hefði til dæmis lagst gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi er ólíklegt að laxeldiskvíarnar sem nú eru komnar við Vigur hefðu verið settar þangað. Áhættumatið 2017 heimilaði ekkert eldi í Ísafjarðardjúpi en matið 2020 gerði ráð fyrir eldi á 12000 tonnum.
Þá leyfði matið 2017 ekki laxeldi í Seyðisfirði en matið 2020 gerði ráð fyrir 6500 tonna framleiðslu þar. Fyrirhugað eldi í Seyðisfirði hefur verið umdeilt og væri það ekki á teikniborðinu nú nema vegna niðurstöðu Hafrannsóknarstofnunar árið 2020.
Guðni Guðbergsson vill aðspurður ekki segja til um hvort nýja áhættumatið feli í sér einhver stór tíðindi. „Þetta er ekki komið svo langt. […] Við skulum byrja á því að sjá hvort forsendurnar standist rýni áður en við förum eitthvað að spekúlera í tölunum. Þetta kemur þegar það kemur.“ …