Vorið 2017, helstu sérfræðingar Matvælastofnunar (MAST): laxalús verður aldrei sama vandamál í sjókvíaeldi hér við land og í öðrum löndum.
Vorið 2023, 31 eitrun/lyfjafóðrun síðar: mögulega er kominn upp stökkbreyttur og kuldaþolinn stofn af laxalús við Ísland.
Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur m.a. fram:
„Nauðsynlegt er að rannsaka hvernig laxalús gat lifað síðastliðinn vetur af og ekki síst fjölgað sér í þeim kalda sjó sem var á eldissvæðunum á Vestfjörðum í vetur. Hvergi hefur þekkst að laxalús geti ráðið við slíkar aðstæður en óvænt þurfti að grípa til beitingu lúsalyfja í Arnarfirði og Patreksfirði undir lok síðasta mánaðar.
„Það má segja að það hafi komið okkur á óvart að það hafi komið lús í þessu magni á þessum tíma. Sjórinn hafði verið óvenju kaldur í vetur og var um tíma bara 0,2 gráður í janúar og mars. Svo voru þetta svæði sem höfðu verið meðhöndluð með lyfjafóðrinu Slice fyrir áramót,“ segir Karl Steinar Óskarsson, deildarstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun. …
Ekki er vitað hvað olli því að lúsin lifði veturinn af. „Það getur verið að þetta sé tilfallandi tilfelli og erum við þess vegna að vakta stöðuna, en það getur líka verið að lúsin sé að þróa aukið kuldaþol. Það eru í sjálfu sér engar rannsóknir í gangi á laxalús og það er verkefni sem heyrir ekki undir okkur,“ segir Karl Steinar. Hann segir kanadíska og norska kollega sína vart trúa því að þetta hafi átt sér stað. …
Formleg vöktun lúsafjölda er hins vegar takmörkunum háð. „Samkvæmt reglugerð má ekki telja lús þegar sjávarhiti er fjórar gráður eða minni. Með þeim aðferðum sem við notum þarf að taka fisk upp úr kvíunum og telja lús. Út af velferðarsjónarmiðum er ekki talið þar sem það hefur neikvæð áhrif á fiskinn að taka hann upp úr svona köldum sjó.“
Karl Steinar segir gildandi reglugerð gera ráð fyrir að upplýsingar um lús berist Matvælastofnun einu sinni í mánuði. „Þá í síðasta lagi fimmtánda næsta mánaðar. Þannig að tölurnar fyrir maí, sem við erum að vinna með, þær koma formlega í síðasta lagi til okkar 15. júní og birtast í mælaborði fiskeldis undir lok júní. Við viljum eiga samtal við greinina um tíðari upplýsingagjöf, sérstaklega um lús, og við viljum að í reglugerðarbreytingum sem nú er unnið að verði einnig innleidd skil á upplýsingum oftar en einu sinni í mánuði.“ …
Hann segir full mögulegt að skoða frekari lúsatalningu en framkvæmt hefur verið hingað til án þess að valda of mikilli röskun fyrir fiskinn. Hafnar séu prófanir á Vestfjörðum með svokölluðu Optoscale-tæki sem telur lúsina neðansjávar. „Þetta er sjálfvirkur búnar sem menn eru rétt byrjaðir að prófa sig áfram með.“