Vetrarsár leika eldislax í sjókvíum afar illa. Hreistrið er viðkvæmt í kulda og þegar það skaðast vegna núnings við netin eða bara aðra fiska í netapokanum þá getur myndast svæsin bakteríusýking sem dregur laxinn til dauða á örfáum dögum. Þegar gríðarlegur fjöldi fiska hrundi niður í sjókvíum Arctic Fish í Dýrafirði í janúar og febrúar 2022 var ástæðan að stórum hluta vetrarsár, sem skildu eftir sig skelfilega áverka á fiskinum.
Sjókvíaeldisfyrirtækin hafa reynt að bólusetja fyrir þessum sýkingum með misjöfnum árangri og nú segir Mowi, móðurfélag Arnarlax að bóluefnin séu hætt að virka.