Milli 13 og 20 prósent af villtum þorski við norsku eyjuna Smöla étur svo mikið af afgangsfóðri sem berst úr sjókvíaeldiskvíum að samsetning fituinnihalds þorsksins breytist og magn af hinum mikilvægu Omega-3 fitusýrum minnkar. Þetta sýnir ný rannsókn sem var að birtast í Noregi og hægt er að lesa um nánar í umfjöllun á vef norsku Hafrannsóknastofnunarinnar.
Ástæðan fyrir þessari hnignun villta þorsksins er að uppruni um það bil 70 prósents af fóðri fyrir eldislax er úr landbúnaðarafurðum, sem innihalda ekki Omega-3.
Það hefur lengi legið fyrir að eldislax er ekki sú hollustuvara sem villtur fiskur er vegna þess hversu hátt hlutfall af fóðrinu kemur núorðið úr plönturíkinu, en magn hinna hollu Omega-3 fitusýra er aðeins helmingur af því sem var í eldislaxi fyrir áratug.
Þetta eru hins vegar nýjar fréttir, að laxeldisfóðrið sem streymir út úr sjókvíunum sé farið að spilla líka villtum þorski í miklum mæli.
Í Ísafjarðardjúpi eru stærstu og gjöfulustu uppeldisstöðvar þorsksins og fleiri helstu nytjastofna okkar, en þar hafa nú stjórnvöld heimilað sjókvíaeldi á laxi af iðnaðarskala.