Það var merkilegt, svo við orðum það kurteisislega, að heyra Jens Garðar Helgason í fréttum RÚV láta einsog Sjókvíaeldi Austfjarða væri að sýna Seyðfirðingum tillitssemi með því að sjókvíarnar, sem hann og norskir eigendur hans vilja koma ofaní fjörðinn þvert á vilja mikils meirihluta heimafólks, muni ekki sjást frá þorpinu.
Engri slíkri „tillitssemi“ er fyrir að fara í Stöðvarfirði þar sem Jens og félagar ætla að setja niður sjókvíar með 7.000 tonna eldi beint fyrir framan þorpið í um það bil eins til tveggja kílómetra fjarlægð út á þessum fallega firði.
Rifjum þetta aðeins upp, með Stöðfirðingnum Ívari Ingimarssyni.
„Þessa mynd er af Stöðvarfirði. Hin myndin er af staðsetningu 7000 tonna laxeldi beint fyrir framan þorpið sem Matvælastofnun er nýbúin að gefa út rekstrarleyfi fyrir.
Það er með ólíkindum að það sé leyfilegt að setja niður 7000 tonna eldi beint fyrir framan heimili fólks. Það á ekki að setja fólk í þessa stöðu. Það er allt rangt við það.
Mér finnst þögn og skoðannaleysi ráðamanna og þingmanna í þessu máli vandræðaleg. Myndu þeir vilja svona fyrir framan heimili sitt? Ef svar þeirra er nei, ættu þeir að taka upp þetta mál.“