Gömul vinnuregla vandaðra fjölmiðla hljómar um það bil svona: Ef einhver segir manni að það sé sól úti en annar að það sé rigning, þá á ekki að segja frá báðum fullyrðingum heldur kíkja út um gluggann og athuga sjálfur hvað er rétt og skrifa því næst fréttina.
Stóru miðlarnir féllu allir á þessu prófi í dag.
Jón Kaldal ræddi þessa sorglegu staðreynd við Vísi:
„Já, mér fannst sorglegt að sjá helstu fjölmiðla landsins hlaupa 1. apríl í boði Kristins. H. Gunnarssonar og BB, sem hefur verið á framfæri fólks með náin tengsl við sjókvíaeldisfyrirtækjanna fyrir vestan. Hefur Fjölmiðlanefnd meðal annars áminnt miðilinn fyrir það hvernig hann stóð að umfjöllun um sjókvíaeldið,“ segir Jón í samtali við Vísi. …
„Örlítil sjálfstæð athugun stóru fjölmiðlanna, RÚV, Vísis og MBL, á þessum dellu áburði á hendur ríkisendurskoðanda hefði leitt í ljós að hagsmunir hans rista ekki dýpa en svo að veiðileyfi í Laxá í Hvammssveit, sem rennur um jörð í hans eigu, eru ekki seld á almennum markaði og meðalveiðin frá 1982 til 2010 var 46 laxar á ári. Hann var svo fulltrúi íslenska ríkisins í alþjóðlegu samstarfi sem embættismaður, þau störf hans gera hann ekki að hagsmunaaðila,“ segir Jón og honum er ekki skemmt.
Jón spyr þá hvert hið meinta vanhæfi Guðmundar ætti eiginlega að vera?
„Að vilja vernda villta íslenska laxinn gegn því að hann skaðist varanlega af völdum sjókvíaeldis?
Hagsmunagæslufólk sjókvíaeldisfyrirtækjanna virðist ekki átta sig á að það er sjálft að staðfesta þá skaðsemi með svona smjörklípum.“
Jón telur þetta grátlega „let them deny it-skítapillu“ frá Sleggjunni. Þetta megi heita ryðgaður öngull úr þeirri áttinni:
„Þetta er örþrifaráð fólks sem veit að það hefur vondan málstað að verja. Skýrsla Ríkisendurskoðunar leggur staðreyndir á borðið sem sjókvíaeldisfyrirtækin vilja ekki ræða efnislega.“ Því miður hefur það að einhverju leyti heppnast að mati Jóns Kaldals.