Það er engu líkara en Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hafi ákveðið að storka náttúruverndarfólki eins hraustlega og mögulegt er með skipun formanna í tveimur starfshópum. Í dag kynnir hann Einar K. Guðfinnsson, helsta lobbísta sjókvíaeldisiðnaðarins undanfarin ár, sem formann starfshóps sem á meðal annars að skila tillögum um „græna atvinnuuppbyggingu“ á Vestfjörðum.
Áður hafði Guðlaugur Þór skipað Jens Garðar Helgason, aðstoðarforstjóra sjókvíeldisfyrirtækisins Fiskeldis Austfjarða og hagsmunagæslumann norskra eigenda þess, formann stýrihóps sem hefur það hlutverk að vinna tillögu að efnisþáttum og skipulagi fyrir gerð landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum.
Hafi einhver haldið það enn að Guðlaugur Þór væri í stóli umhverfisráðherra til að vinna að vernd íslensks lífríkis og náttúru þá hefur þeim misskilningi verið eytt endanlega.
Í tilkynningu ráðuneytisins segir:
„Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp sem hefur það hlutverk að vinna tillögur um aðgerðir sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins og stuðlað geta að því að efla samfélagið á Vestfjörðum.
Gert er ráð fyrir að tillögur hópsins snúi að jarðhitaleit, aukinni orkuöflun, þjóðgarði á Vestfjörðum, eflingu hringrásarhagkerfisins og grænni atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum, sem og eftirfylgni með tillögum sem starfshópur um raforkumál á Vestfjörðum skilaði í fyrra. Þá ber starfshópnum að hafa samráð við stofnanir og haghafa eftir því sem við á.“
Í fréttatilkynningunni er vitnað í Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:
„Sveitarstjórnarfólk á Vestfjörðum hefur kallað eftir að stjórnvöld styrki samkeppnisstöðu Vestfjarða til búsetu. Ýmsar áhugaverðar hugmyndir hafa kviknað hjá íbúum á svæðinu um hvernig bregðast skuli við þessari áskorun. Stjórnvöld, og samfélagið og atvinnulífið á Vestfjörðum þurfa að taka höndum saman við að móta frekar þessar hugmyndir. Það er von mín að tillögur starfshópsins verði lóð á þær vogarskálar og að þær muni efla og styrkja Vestfirði.“
Starfshópinn skipa:
Einar K. Guðfinnsson, formaður
Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar,
Jón Árnason, forseti bæjarstjórnar í Vesturbyggð.