Norska ríkissjónvarpið sagði frá því í gærkvöldi að minnsta kosti 40.000 eldislaxar hefðu sloppið úr sjókví í Sognfirði á vesturströnd Noregs. Stór hluti eldislaxanna fór beint upp í aðliggjandi ár og berst nú heimafólk með hjálp fjölda sjálfboðaliða við að ná þeim upp úr ánum.
Í sjónvarpsfréttinni, sem hægt er að skoða með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan, sést að eldisfiskarnir eru komnir að hrygningu sem er skelfileg staða því nú stendur yfir hrygningartímabil villta laxins í Noregi.
Í fréttinni er rætt við fólk sem er gráti nær því það veit að engar líkur eru á því að ná nema hluta af eldislöxunum. Afleiðingarnar verða erfðablöndun og hnignun villtu staðbundnu laxastofnanna.
Þetta er sjókvíaeldisiðnaðurinn í hnotskurn. Þar rekur endalaust á með hörmungum eftir hörmungum.
Stórfyrirtækin í þessum skaðlega iðnaði knésettu norsk stjórnvöld og hafa gert það sama hér, þar sem þau hafa komið sér fyrir innan Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), sem eru frekustu hagsmunasamtök landsins, og gera núna svo til nákvæmlega það sem þeim sýnist.
Til að fara í fréttina skal smella á kassa 3 undir vídeóspilaranum sem opnast þegar smellt er hér.