Arnarlax hefur tilkynnt Matvælastofnun (MAST) um rifið net í sjókví þar sem í voru um 100 þúsund eldislaxaseiði í Tálknafirði. Á þessari stundu er ekki vitað hversu mörg þeirra sluppu úr netapokanum.
Einsog lesendur vita hafa verið að finnast eldislaxar frá Arnarlaxi í ám um alla sunnanverða Vestfirði á undanförnum vikum og mánuðum. Talið er að uppruni þeirra sé úr sjókví sem gat kom á í ágúst 2021.
Þetta mun aldrei stoppa svo lengi sem stjórnvöld leyfa opið sjókvíaeldi við Ísland. Eldislaxar sleppa úr kvíum, hvort sem það er með stöðugum minni lekum eða í stórum sleppislysum.
Og afleiðingarnar geta bara orðið þær að villti laxinn mun gjalda dýrum dómum fyrir þessa úreltu framleiðsluaðferð.
Gatið uppgötvaðist við reglubundið eftirlit og er viðgerð lokið. Samkvæmt upplýsingum Arnarlax var gatið um 14 cm rifa á 9 m dýpi. Í þessari tilteknu kví voru 99.025 laxaseiði sem sett voru í kvínna 17. október sl. og voru þau við útsetningu með meðalþyngd 105,6 gr. Neðansjávareftirlit var áður framkvæmt 16. október sl. og var nótarpoki þá heill.
Matvælastofnun hefur fyrirskipað köfun í allar kvíar á eldissvæðinu sem um ræðir til að tryggja að ekki séu fleiri göt á öðrum kvíum og gengið úr skugga um að viðbragðsáætlunum hafi verið fylgt. Matvælastofnun hefur atvikið til meðferðar. Arnarlax hefur lagt út net í samráði við Fiskistofu til að kanna hvort strok hafi átt sér stað.