Frábær varnarbarátta fólksins á Seyðisfirði fyrir vernd fjarðarins er að bera árangur. Bravó!
Helgunarsvæði Farice sæstrengsins í Seyðisfirði er svo stórt að það útilokar fyrirhugað eldissvæði í Sörlastaðavík. Skipulagsstofnun hefur upplýst að helgunarsvæði Farice strengsins hafi verið sýnt of lítið á skipulagstillögu. Þá þykja tvö af þremur fyrirhuguðum eldissvæðum í firðinum þrengja um of að siglingaleiðum samkvæmt áhættugreiningu.
Laxar fiskeldi Austfjarða áformar 10 þúsund tonna eldi í Seyðisfirði á þremur stöðum. Innsta eldissvæðið á að vera í Sörlastaðavík en þar er fjörðurinn þröngur – aðeins 1,2 kílómetrar á breidd. …
Þetta þýðir að í sunnanverðum firðinum er aðeins eftir mjó ræma fyrir eldissvæðið í Sörlastaðavík, kannski 100 metra breið. Það ræðst af nákvæmri staðsetningu strengsins sem ekki fæst uppgefin af öryggisástæðum en gróflega má sjá strenginn á sjókortum. Kvíarnar sjálfar taka hundrað metra en festingarnar þurfa að liggja skáhallt niður á botninn og því er ekki pláss fyrir þær öðruvísi en að þær fari inn á helgunarsvæði Farice. Samkvæmt upplýsingum frá Farice verður ekki gefinn neinn afsláttur af helguninni enda væri það brot á fjarskiptalögum.
Af sömu ástæðum er takmarkað pláss á næsta eldissvæði sem er í Selsstaðavík en þar er snjóflóðahætta. Veðurstofan bendir á í minnisblaði að atvinnusvæði þurfi að vera neðan b-línu. Fyrirhugað kvíaból í Selsstaðavík standist ekki það viðmið og sé á C hættusvæði. Tjón hafi orðið á þessu svæði í snjóflóðum 1974 og 1988.
Þessu til viðbótar má nefna að eldissvæði í Sörlastaðavík og Selsstaðavík myndu þrengja að siglingum um Seyðisfjörð. Á sumrin er þar mikil umferð stórra skemmtiferðaskipa.