Við mælum með þessari grein Fiskifrétta um landeldið sem verið er að reisa við Þorlákshöfn. Þar kemur meðal annars fram að fyrir hvert tonn af fóðri sem fer í seiðaeldið er hægt að rækta eitt tonn af laxaseiðum og sex tonn af grænmeti.
Þannig verður það sem er mengun og hættulegt lífríkinu þegar því er dælt í sjóinn, einsog sjókvíaeldisfyrirtækin gera, að dýrmætum áburði fyrir grænmetisræktun hjá landeldinu.
„Eitt af því sem við getum lagt til málanna hvað umhverfismálin snertir er að skoða allt sem fellur til í framleiðslunni og hvernig hægt er að nýta það í áframhaldandi vinnslu. Við verðum með endurnýtingarkerfi og til fellur fiskimykja sem við getum síað og notað í áburð eða til metanframleiðslu. Því til viðbótar safnast upp næringarefni í vatni endurnýtingarstöðva og það vill svo til þessi næringarefni eru nákvæmlega þau sömu og verið er að bæta út í vatn í gróðurhúsum, þ.e. fosfór, nitur og kalíum. Við sjáum því fyrir okkur að nota affallsvatnið í seiðaeldi okkar til þess að hefja grænmetisræktun í gróðurhúsi. Við munum leiða það inn í gróðurhúsin og það fer nær ómeðhöndlað í gegnum plönturæturnar. Þetta er þekkt og kallast sameldi,“ segir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri Geo Salmo í viðtali við Fiskifréttir.