Í fyrra drápust 2,9 milljón eldislaxar í sjókvíum í íslenskum fjörðum. Til að setja þessa geigvænlegu tölu í samhengi þá er hún um það bil 50 föld stærð alls íslenska villta laxastofnsins.

Að meðaltali voru rúmlega 16 milljón laxar í sjókvíum við Ísland árið 2021. Þýðir að 18 prósent eldisdýranna lifði ekki af þær aðstæður sem þessi aðferð við matvælaframleiðslu.

Hugsið ykkur þessa tölu. Nánast einn af hverjum fimm fiskum sem sjókvíaeldisfyrirtækin ætla sér að ala drepst.

Þessar tölur er hægt að lesa út úr uppfærðum gögnum sem MAST birtir á svokölluðu Mælaborði fiskeldis og koma beint frá sjókvíaeldisfyrirtækjunum sjálfum.

Og ekki byrjar þetta ár neitt skárra en 2021. Í frétt á vef vestfirska fjölmiðilsins BB má nú lesa viðtal við starfsmann Arctic Fish sem segir frá því að vegna kulda hafi verið mikil „afföll“ í sjókvíaeldi fyrirtæksins í Dýrafirði þar sem það er með tíu þúsund tonna eldi. Miðað við þetta framleiðslumagn má gera ráð fyrir að um fjórar milljónir laxa séu í kvíum Arctic Fish. Í fréttinni kemur fram að gert er ráð fyrir 3% afföllum. Það eru um 130.000 fiskar. Eða hátt í þrefaldur íslenski villti laxastofninn. Á einum mánuði. Hjá einu fyrirtæki. Í einum firði.

Sjókvíaeldi er óboðleg aðferð við matvælafamleiðslu.