„Talsmenn þessa iðnaðar hér á landi bera jafnan fyrir sig að kostnaðurinn við landeldi sé of hár. En um leið og sjókvíaeldisfyrirtækin verða annars vegar látin axla ábyrgð og kostnað af því að hreinsa úrganginn, sem nú streymir frá sjókvíunum, og hins vegar tryggja að enginn fiskur eða sníkjudýr geta sloppið úr kvíunum, mun leikurinn jafnast þegar kemur að stofn- og rekstrarkostnaði milli landeldis og sjókvíaeldis. Eins og staðan er núna senda sjókvíaeldisfyrirtækin reikninginn fyrir menguninni, sníkjudýrunum og erfðablönduninni til umhverfisins og lífríkisins,“ segir Ragna Sif Þórsdóttir í aðsendir grein í Fréttablaðinu í dag og kallar jafnframt eftir afstöðu umhverfisráðherra og flokks hans til sjókvíaeldis.
Í greinni segir Ragna ennfremur:
„Í sjókvíaeldi er fiskur geymdur í netapoka sem hangir á grind. Eðlilega eru netmöskvarnir engin fyrirstaða fyrir skólpið sem verður til þar sem hundruð þúsund fiskar eru geymdir í langan tíma. Mörg hundruð tonn af skít og fóðurleifum safnast upp á botninum fyrir neðan sjókvíarnar. Við þann hroða bætist svo lyfjafóður og skordýraeitur sem er notað til að berjast við sníkjudýr.
Ný kanadísk rannsókn sýnir að hafsvæði í nágrenni við sjókvíaeldisstöðvar eru um þrisvar sinnum líklegri til að innihalda erfðaefni fjölmargra vírusa og baktería sem valda sjúkdómum í villtum laxi en svæði þar sem ekki er sjókvíaeldi.
Það er því ekki að ástæðulausu að danski umhverfisráðherrann sagði „framtíð fiskeldis er á landi“.