Enn heldur áfram að hlaðast upp tap hjá Arnarlaxi og er það nú komið samtals vel yfir fimm milljarða á undanförnum árum. Félagið var stofnað árið 2009 og hefur aldrei skilað jákvæðri afkomu og því aldrei greitt tekjuskatt. Og þetta uppsafnaða tap þýðir að ekki er von á að það greiði tekjuskatt á Íslandi á komandi árum.
Annað merkilegt í þessari fréttt, er þetta nýja nafn, sem Arnarlax hefur tekið upp. Það er eins villandi og hægt er. Laxinn sem fyrirtækið elur í sjókvíunum er af norsku kyni (um það er hvergi deilt), étur innflutt fóður og er í eigu fyrirtækis sem er skráð í norsku kauphöllinni (Salmar). Það er sem sagt ekkert íslenskt við þessa afurð.
„Rekstrartap fiskeldisfyrirtækisins Icelandic Salmon, áður Arnarlax, nam 50 milljónum norskra króna á síðasta ári en það jafngildir rúmlega 750 milljónum íslenskra króna. Þetta kemur fram í árshlutareikningi norska móðurfélagsins SalMar. … Erfiður markaður og lægra verð á laxi er sagt liggja að baki rekstrartapinu.
Rekstrartekjur Icelandic Salmon jukust um 5,6% milli ára og námu 662 milljónum norskra króna árið 2020. Á síðasta ársfjórðungi 2020 hóf fyrirtækið uppskeru á 2019 kynslóð eldislaxins sem hafi töluvert lægri uppskerukostnað.
Icelandic Salmon framleiddi 11,2 þúsund tonn af eldislax á síðasta ári, sem er 14% aukning frá fyrra ári. Fyrirtækið væntir þess að framleiða 14 þúsund tonn af eldislaxi í ár.“