Öruggur meirihluti íbúa á Seyðisfirði hafnar alfarið áformum um sjókvíaeldi í firðinum, þar á meðal er Þóra Bergný Guðmundsdóttir. Hún hefur rekið veitingahús og ferðaþjónustufyrirtæki í áratugi í bænum sem hefur fyrir löngu markað sér sérstöðu fyrir blómlegt mannlíf.
„Nú erum við þar stödd að í bænum hefur verið byggð upp öflug ferðaþjónusta og þar þrífst mergjað menningar- og listalíf. Íbúar eru meðvitaðir um að f leira þarf að koma til en þær leiðir viljum við sjálf finna og ekki vera taglhnýtingar erlends auðvalds og úreltra atvinnugreina,“skrifar Þóra í kröftugri grein sem í Fréttablaðinu í dag.
Þóra hafnar öllu tali um atvinnusköpun sjókvíaeldis:
„Því hefur mikið verið flíkað að fiskeldið færi með sér fjölda starfa og skili miklum arði til samfélagsins. Í því sambandi má benda á að fyrirtækin starfa eftir sama skattamódeli og önnur fyrirtæki í erlendri eigu og eru í stöðugri skuld við móðurfélagið og skila því hallarekstri ár eftir ár.
Eftirtektarvert var það um daginn þegar hið „stönduga“ fyrirtæki Arnarlax neitaði að greiða uppsett gjöld til bæjarfélagsins og vildi setja sína eigin verðskrá.
Hvað varðar störfin heldur Fiskeldi Austfjarða því fram í frummatsskýrslu að hverjum 1.000 tonnum í sjó fylgi 14 störf (8 í eldi + 4 í úrvinnslu). Þetta jafngilti því að á Fáskrúðsfirði ættu að starfa um 80-100 manns við eldið nú en raunin er að þeir eru eflaust ekki fleiri en 8 til 10, enda væru Norðmenn ekki að koma til Íslands miðað við þessar forsendur þar sem í norskum laxeldisfyrirtækjum starfa að meðaltali 1,6 starfskraftar við hver 1.000 tonn í sjó.
Undirskriftum 55% íbúa Seyðisfjarðar var komið til sveitarstjóra Múlaþings. Þann 8. desember. Í framhaldinu var málefnið rætt í nýrri sveitarstjórn og undirnefndum hennar.
Fljótt varð ljóst að mótbárur Seyðfirðinga voru léttvægar fundnar og aðeins fiskeldisfyrirtækið átti sér málsvara hjá meirihluta Sjálfstæðismanna og Framsóknar í sveitarstjórninni.
Voru það sannarlega vonbrigði þar sem í sameiningarferlinu var því haldið á lofti að hvert byggðarlag í nýju sveitarfélagi fengi að halda sérstöðu sinni og raddir heimamanna skyldu virtar.“