IWF er meðal nokkurra félagasamtaka að baki þessari áskorun til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem birtist sem heilsíðuauglýsing í Fréttablaðinu í dag.
Texti áskorunarinnar:
Lúsa- og sjúkdómasmit úr sjókvíaeldi skaðar villta silungs- og laxastofna Íslands
Við skorum á Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að draga nú þegar til baka reglugerðardrög sín þar sem gert er ráð fyrir að felld verði niður fjarlægðarmörk sjókvíaeldisstöðva frá laxveiðiám.
Lúsasmit úr sjókvíaeldi hefur skelfileg áhrif á villta silungs- og laxastofna. Sérstaklega er ungviði villtu stofnanna mikil hætta búin.
Markmið íslenskra fiskeldislaga er að stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Við framkvæmd laganna skal þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu.
Afnám fjarlægðarmarka sjókvíaeldisstöðva við laxveiðiár er í beinni andstöðu við þessi grundvallarmarkmið.
Icelandic Wildlife Fund
Landssamband veiðifélaga
Laxinn lifir
Náttúruverndarsamtök Íslands
Stangaveiðifélag Reykjavíkur
Verndarsjóður villtra laxastofna