Sorglegt er að lesa rök sjávarútvergsráðuneytisins fyrir niðurfellingu þess mikilvæga ákvæðis að sjókvíaeldiskvíar verði ekki settar niður í nágrenni laxveiðiáa sem hafa hingað til verið í skjól frá þessum skelfilega iðnaði. Í svari ráðuneytsins til Stundarinnar kemur fram að sérfræðingar ráðuneytisins telji ekki þörf á þessu ákvæði þar sem áhættumat erfðablöndunar í laxeldi sé svo strangt.
Þetta er augljós tilraun hjá ráðuneytinu, og mögulega ráðherra, til að villa vísvitandi um fyrir fólki.
Villtum laxi og sjóbirtingi stafar ekki aðeins hætta af erfðablöndun frá sjókvíaeldi heldur veldur laxalúsin, sem grasserar í kvíunum, skelfilegum skaða á villtum stofnum og í áhættumati erfðablöndunar er ekki neitt tillit tekið til laxalúsarinnar. Þekkt er að lúsin, sem verður til í geigvænlegu magni í sjókvíunum, stráfellir seiði villtra laxfiska á leið til hafs.
Þetta á ráðherra að vita. Öruggt er að minnsta kosti sérfræðingar hans eru með þetta á hreinu. Sjávarútvegsráðherra hlýtur að draga þessa tillögu til baka. Nema að hann sé meðvitaður um málið og standi á sama um afleiðingar fyrir villtu stofnana.