Betri vara og umhverfisvænni segir eigandi Tokyo Sushi um laxinn sem hann fær úr landeldi Samherja í Öxarfirði, í samtali við Stundina.
„Andrey Rudkov, stofnandi og eigandi Tokyo-sushi, segir að fyrirtækið hafi byrjað að kaupa landeldislax Samherja nú í sumar. Fyrirtækið kaupir Samherjalaxinn í gegnum fyrirtækið Eðalfisk í Borgarnesi. „Við einfaldlega fundum betri afurð og dreifingaraðila sem er traustari og sem við fáum lax frá allt árið. Við vildum ekki kaupa af Arnarlaxi meðal annars af því að á hverju sumri hættum við að fá lax frá Arnarlaxi og við þurftum að kaupa lax frá Færeyjum eða annars staðar frá og stundum var laxinn 10 daga gamall. Samherji selur okkur betri afurð af því hún er úr landeldi og vegna þess að laxinn er úr landeldi þá koma ekki upp neinar náttúruverndarspurningar sem í augum margra á Íslandi er orðið vandamál,“ segir Andrey og útskýrir að sjókvíaeldisfyrirtækin forgangsraði þannig að íslenski markaðurinn eftir eldislaxi mæti afgangi og fyrst sé eftirspurninni eftir laxi erlendis frá annað. Arnarlax selur til dæmis lax til bandarísku verslanakeðjunnar Whole Foods.
Andrey segir kjarnann í ákvörðun Tokyo-sushi því vera bæði umhverfislega og eins viðskiptalega þar sem framboðið á laxinum er traustara. „Nú fullnægjum við kröfum þeirra sem eru viðkvæmir fyrir eldislaxi úr sjókvíum og þetta er betri bisniss.“