Rúmlega fimm mánuðir eru nú liðnir frá því Arnarlax hóf meðvitað að brjóta gegn skilyrðum starfsleyfis síns. Eftirlitsstofnanir vita af brotum fyrirtækisins en kjósa að aðhafast ekki neitt vegna þess sem virðist vera furðurleg brotalöm í kerfinu.
Málið snýst um að samkvæmt skilyrðum starfsleyfis Arnarlax ber að hvíla eldissvæði við Hringdal í Arnarfirði að lágmarki sex til átta mánuði áður en ný kynslóð af eldisfiski er sett út í sjókvíar á svæðinu.
Með hvíldinni á umhverfið að fá tíma til að hjara við áður en áður en næsti skammtur af botnfalli og annarri mengun frá hundruð þúsundum fiska fer að streyma í sjóinn.
Arnarlax hafði þessi skilyrði að engu og setti út fisk í kvíar á svæðinu í byrjun júní í sumar, aðeins þremur mánuðum eftir að slátrað hafði verið fiski þaðan.
Þegar Umhverfisstofnun gerði athugasemdir við þetta framferði brást Arnarlax við með því að óska eftir undanþágu til Umhverfisráðuneytisins. Það var í júlí, eða fyrir tæplega fjórum mánuðum. Síðan hefur ekkert gerst nema hvað Umhverfisstofnun gaf út í september að hún er andsnúin því að Arnarlax fái undanþágu, enda ekkert í lögum sem segir að ráðuneytinu sé heimilt að veita hana. Stofnunin segist svo ekkert geta aðhafst á meðan undanþágubeiðnin er til meðhöndlunar í ráðuneytinu.
Á meðan geldur umhverfið fyrir.
Skv. umfjöllun Fréttablaðsins:
„Fréttablaðið greindi frá því í september að kvartanir hefðu borist Umhverfisstofnun vegna brota á starfsleyfi. Eldissvæði væru ekki hvíld í að lágmarki 6-8 mánuði milli eldislota eins og skylt væri. Í mars tæmdi Arnarlax sjókvíar í Hringsdal í Arnarfirði. 6. júní hófst útsetning seiða þar á ný, aðeins þremur mánuðum eftir tæmingu.
Bændur í nágrenninu áttu í bréfaskriftum vegna málsins, fyrst við Umhverfisstofnun með kröfum um að Arnarlax yrði látið fara að lögum eða yrði ella svipt starfsleyfi. Svo við umhverfisráðuneytið með kvörtunum undan aðgerðarleysi stofnunarinnar.
Umhverfisstofnun tilkynnti Arnarlaxi um fyrirhugaða áminningu 16. júlí. Í kjölfarið sendi Arnarlax stofnuninni úrbótaáætlun sem miðaði að því að sótt yrði um undanþágu frá hvíldartíma til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Beiðnin var send ráðuneytinu 30. júlí, fyrir rúmum þremur mánuðum.
Í september sendi Umhverfisstofnun umsögn til ráðuneytisins og lagðist gegn því að Arnarlax fengi undanþágu frá starfsleyfi.“