Enn halda áfram að berast fréttir af hrikalegum fiskidauða í þessum verksmiðjubúskap sem sjókvíaeldið er. Fiskidauði og skemmdar kvíar eru þau orð sem oftast koma fyrir í fréttum af sjókvíaeldi, líka hjá sjálfum eldisfyrirtækjunum:.
„Óvenjulega mikil dánartíðni átti sér stað hjá fyrirtækinu sökum þess að meðhöndla þurfti fisk þegar sjávarhitinn á Íslandi var mjög lágur. Frekari dauði átti sér stað við flutning á fiski eftir að einn af kvíum fyrirtækisins skemmdist í stormi. Þessi óvenjulega mikli laxadauði hefur verið bókfærður sem kostnaður í árshlutauppgjörinu,“ segir í uppgjöri Arnarlax.
Í umfjöllun Stundarinnar um þetta segir m.a.:
„Laxeldisfyrirtækið Arnarlax tapaði 63 milljónum norskra króna, tæplega 805 milljónum króna, á laxadauðanum sem átti sér stað hjá fyrirtækinu í mars. Laxadauðann má rekja til mikils sjávarkulda sem og skemmda sem urðu á kví hjá fyrirtækinu í Tálknafirði og þurfti að flytja eldislaxa úr skemmdu kvínni yfir í nýja kví. Þegar kalt er í sjó má eldislaxinn ekki við miklu raski eins og flutningi á milli kvía og drapst því hluti hans. Upplýsingarnar um þetta tap Arnarlax koma fram í fyrsta árshlutauppgjöri móðurfélags Arnarlax, Salmar AS, sem er eitt stærsta laxeldisfyrirtæki Noregs, fyrir árið 2018. Salmar As er skráð á norska hlutabréfamarkaðinn og þarf því að veita ítarlegar upplýsingar um starfsemi félagsins og dótturfélaga þess.“