Jón Þór Ólason formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur ritar góða grein í Fréttablaðið í dag og bendir meðal annars á að eignarrétturinn sé friðhelgur og að raunveruleg hætta sé á því að gangi áform fiskeldismanna eftir muni það hafa verulega neikvæð áhrif á veiðihlunnindi á Íslandi og valda stórkostlegu tjóni.
„Tekjur af nýtingu íslenskra fallvatna með laxastofnum eru mikilvægur þáttur í að byggð geti haldist í samfélögum sem eiga undir högg að sækja samfara hnignun hefðbundinna landbúnaðargreina. Það eru rúmlega 1.800 lögbýli sem hafa tekjur af lax- og silungsveiðihlunnindum. Efnahagsleg velta af þessum náttúrunytjum, miðað við grunn frá hagfræðideild HÍ, er um 15-20 milljarðar á ári og skapar um 1.200 ársstörf. Unnt er að auka þessi verðmæti enn frekar. Skráðir eigendur lögbýlanna eru um 5.000 talsins og nýtur ríkissjóður þessa í skatttekjum.
Eignarrétturinn er friðhelgur og er raunveruleg hætta á því að gangi áform fiskeldismanna eftir muni það hafa verulega neikvæð áhrif á veiðihlunnindi á Íslandi og valda stórkostlegu tjóni. Það hver á þá að borga brúsann er hins vegar efni í aðra grein. Fróðlegt er hins vegar að skoða sögu fiskeldis í þessu ljósi, enda hefur ríkissjóður og almenningur orðið af gríðarlegum fjárhæðum í gegnum tíðina vegna fjöldamargra gjaldþrota í greininni. En nú eru sagðir breyttir tímar. Nú eru erlend aflandsfélög mætt á klakann og fá hina stórkostlegu íslenska náttúru á silfurfati. Nú skal græða álnir. Er einhver sem trúir því að hinir erlendu fjárfestar muni ekki hlaupa með hagnaðarálnirnar úr landi og flýja skipið þegar það byrjar að sökkva?
Áróðursmeistari laxeldis! Ekki meir, ekki meir!“