Skýrar vísbendingar eru um að sú aðferð að veiða og sleppa leikur stórt hlutverk í verndun villtra laxastofna.
„Laxinn þolir þetta vel ef hann er handleikinn rétt,“ segir Sigurður Már Einarsson fiskifræðing hjá Hafrannsóknarstofnun.
Í nýrri skýrslu eftir Sigurð og Ástu Kristínu Guðmundsdóttur kemur fram að 83,4 prósent stórlaxa og 34,9 prósent smálaxa var sleppt í Þverá/Kjará árið 2017 og að aukin laxagengd í ánum megi rekja til auknum sleppingum á veiddum laxi.
„Það hefur orðið viðsnúningur og við erum farin að nálgast það sem var fyrir tuttugu árum í hlutdeild stórlaxa,“ segir Sigurður Már Einarsson, annar tveggja höfunda nýrrar skýrslu Hafrannsóknastofnunar um vöktun laxastofna í Þverá og Kjarrá í Borgarfirði.
Í skýrslunni, sem unnin er fyrir veiðifélag svæðisins, gera Sigurður og Ásta Kristín Guðmundsdóttir grein fyrir aukinni laxagengd í Þverá og Kjarrá samfara auknum sleppingum á veiddum laxi.
Sigurður hefur unnið að rannsóknum á svæðinu frá árinu 1989. Þar hefur í áratug eingöngu verið veitt á flugu og er skylda að sleppa stórlaxi.
Alls veiddust 2.067 laxar á vatnasvæði Þverár sumarið 2017. Af þeim voru 1.475 smálaxar og 592 stórlaxar. Þetta er mesti fjöldi stórlaxa í Þverá/Kjarrá síðan árið 1990. „Alls var 1.009 löxum sleppt í veiðinni, þar af 83,4 prósent stórlaxa og 34,9 prósent smálaxa. Fjöldi og hlutdeild stórlaxa fer vaxandi í veiðinni og eru þeir með 25-30 prósent hlutdeild í gönguseiðaárgöngum 2013 til 2015,“ segir í skýrslunni.