Opinbert eftirlit með laxeldi í sjókvíum er varla nema orðin tóm, eins og kemur berlega í ljós í þessari frétt.
Forstjóri Umhverfisstofnunar gagnrýnir Arnarlax fyrir að tilkynna ekki óhöpp til stofnunarinnar. Sviðsstjóri lax- og silungsveiðisviðs Fiskistofu, segir Fiskistofu aðeins koma að málinu þegar fiskur hefur sloppið en aðkoma stofnunarinnar hvílir á virku eftirliti MAST, sem er ekki til staðar.
Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar (UST), gagnrýnir að stofnuninni hafi ekki borist erindi um tvö aðskilin óhöpp hjá Arnarlaxi sem áttu sér stað fyrir rúmri viku. … Kristín Linda hefur komið því á framfæri að hún vilji að tilkynningar á borð við þær sem MAST fékk frá Arnarlaxi komi inn á hennar borð. „Það sé þá okkar að meta hvort mengunarhætta sé til staðar,“ útskýrir Kristín, en mengunarslys er skylt að tilkynna til UST. Hún gagnrýnir að stofnunin hafi ekki verið upplýst um stöðu mála fyrr en segist þegar hafa kallað eftir frekari upplýsingum.
Upplýsingafulltrúi UST, Björn Þorláksson, spyr sig af hverju atvikið hafi ekki verið tilkynnt til stofnunarinnar, í ljósi þess að það mátti finna göt á annarri kvínni. „Ef þetta atvik hefði komið upp í kví í Faxaflóa þá mætti spyrja sig hvort viðbrögð, aðhald og eftirfylgni yrði með markvissari hætti.“
Landssamband veiðifélaga óskaði eftir því við sjávarútvegsráðherra í gær að gerð yrði stjórnsýsluúttekt á eftirliti þeirra stofnana sem lögum samkvæmt hafa eftirlit með sjókvíaeldi.